Enski boltinn

Gerrard: Aðeins heimsklassa leikmenn komast í liðið hjá Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steven Gerrard er mættur aftur til Liverpool.
Steven Gerrard er mættur aftur til Liverpool. Vísir/Getty
Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, segir að það sé ekki nóg að vera bara góður ef þú ætlar að spila fyrir Liverpool. Þú þarft að vera í heimsklassa til að komast í liðið.

Gerrard, sem spilaði 710 leiki á 18 ára ferli hjá Liverpool, stýrir U18 ára liði félagsins á næstu leiktíð en hann hefur verið á fullu að velja menn með sér í starfið í byrjun sumars.

Hann hlakkar mikið til þessarar nýju áskorunar en lætur strákana vita að þeir verða að standa sig á hverjum einasta degi ætli þeir að halda áfram upp stigann og enda á því að spila fyrir aðallið Liverpool.

„Það er mikið af hæfileikaríkum strákum þarna, alveg rosalega mikið. En ég hef sagt það áður og ég segi það aftur: Ef þú ætlar að spila fyrir Liverpool þarftu að vera í heimsklassa,“ segir Gerrard í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Þú þarft að vera í heimsklassa á hverjum degi því gildi þesa félags breytast aldrei. Ég er ekki að fara að koma inn núna og breyta neinu. Ég mun segja strákunum að þeir verða gjörsamlega að þrá að spila fyrir aðallið Liverpool ætli þeir sér að komast þangað,“ segir Steven Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×