Rannsókn fornleifafræðinganna er hluti af umhverfismati fyrir stórskipahöfn á Dysnesi með allt að 300 metra viðlegukanti sem fyrirtæki og sveitarfélög í Eyjafirði áforma að byggja á næstu árum. Hafnarmannvirki sem á að þjóna olíuleit á Drekasvæðinu sem og námagreftri á austurströnd Grænlands. Einnig hefur þessi framkvæmd verið markaðssett sem umskipunarhöfn fyrir siglingar yfir norðurpólinn. Framkvæmdin er talin munu kosta tæpa tuttugu milljarða króna.

Tvö bátskuml og víkingasverð eru á meðal þess sem fundist hefur við Dysnes en aðeins einu sinni hafa fundist tveir bátar á sama stað og aðeins hafa fundist um 15-20 sverð við fornleifauppgröft á Íslandi. Andrés segir að til að koma í veg fyrir að ómetanlegar menningarminjar fari forgörðum verði að grípa til bráðaaðgerða til þess að kortleggja fornleifar í landinu. „Mesta tímapressan er á strandsvæðum, þar sem við erum í kapphlaupi við tímann. Ráðuneytið reiknar með að það ætti að vera hægt að skrá strandlengjuna alla fyrir um 330 milljónir, útgjöld sem myndu kannski dreifast yfir fimm ár. Þá fengjum við loksins heildarsýnina sem vantar svo sárlega núna,“ bendir hann á.