Sport

Við gætum notað Fjallið hjá Vikings

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Linval Joseph er ekki vanur því að hitta menn sem eru stærri um sig en hann. Það var undantekning í gær er hann hitti Hafþór Júlíus.
Linval Joseph er ekki vanur því að hitta menn sem eru stærri um sig en hann. Það var undantekning í gær er hann hitti Hafþór Júlíus.
Leikmenn NFL-liðsins Minnesota Vikings voru hér á landi í gær og heimsóttu meðal annars Fjallið Hafþór Júlíus Björnsson og rifu í járnin með honum.

Það er ekkert pláss fyrir nein smámenni í lyftingasal Hafþórs Júliusar. Linval Joseph er einn sterkasti varnarmaður Vikings og hann iðaði í skinninu að fá að lyfta með Hafþóri.

Þeir hituðu upp með því að bekkja 100 kíló og fóru alla leið upp í 200. Þá sagði yfirmaður Joseph hjá Vikings að hann mætti ekki lyfta meiru þann daginn. Hann var engu að síður í skýjunum með æfinguna.

„Það er frábært tækifæri að koma hingað og hitta Fjallið. Hann er sterkur með mikla tækni og það er mikil ánægja að fá að koma hingað og lyfta,“ sagði löðursveittur Joseph eftir að hafa rifið 200 kílóin upp þrisvar sinnum.

„Ég stóð mig vel. Ég er sterkur strákur og hef verið að leika mér í bekkpressu síðan ég var 15 ára gamall. Ég er stoltur af því og það var frábært að fá að fara í bekkpressu með Fjallinu.“

Eins og fram kom á Vísi í dag þá hefur Washington Redskins áhuga á því að fá Hafþór Júlíus til æfinga en gætu Víkingarnir ekki notað hann?

„Við ættum að geta það. Ég hef á tilfinningunni að hann geti hjálpað okkur.“

Joseph veit hvað hann talar um enda hefur hann unnið Super Bowl og er í stjörnuleikmaður í NFL-deildinni.

NFL

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×