Innlent

Þungavigtarfólk í Viðreisn mótfallið áformum samgönguráðherra um nýja flugstöð í Vatnsmýri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þrír þingmenn Viðreisnar og einn ráðherra eru ekki hrifnir af áformum samgönguráðherra um að byggja nýja flugstöð í Vatnsmýri.
Þrír þingmenn Viðreisnar og einn ráðherra eru ekki hrifnir af áformum samgönguráðherra um að byggja nýja flugstöð í Vatnsmýri. vísir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, segir að framtíð innanlandsflugs sé ekki í Vatnsmýri. Að ætla annað sé sóun á dýrmætum tíma og peningum segir ráðherrann í færslu á Twitter.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að samgönguráðherra vonist til þess að á næsta ári verði hægt að hefja framkvæmdir við nýja flugstöð í Vatnsmýri.

Þá var einnig greint frá því að ráðherrann ætli að skipa nýja nefnd sem verði falið að meta flugvallarkosti fyrir innanlandsflug en Rögnunefndin svokallaða fékk það verkefni á sínum tíma að meta það sama. Var niðurstaðan sú að Hvassahraun væri fýsilegasti kosturinn.

Pawel Bartozsek, þingmaður Viðreisnar, ritar svo pistil á heimasíðu sína í dag þar sem hann gagnrýnir þessi áform Jóns. Í pistlinum segir Pawel að honum lítist vel á flugvöll í Hvassahrauni en hann leggur út frá því hversu ódýrt er nú orðið að fljúga héðan til Evrópu og svo innan Evrópu sjálfrar.

Þingmaðurinn bendir á að árið 1998 hafi flugmiði til London kostað 20 þúsund krónur. Framreiknað í dag, með tilliti til verðbólgu, séu það 100 þúsund krónur en í dag má komast til London fyrir minna en 10 þúsund kall.

„Í þá daga var hvert land með sitt aðalflugfélag, og hvert land með sinn aðalflugvöll. Ætlaði maður sér að fljúga annað en á aðalflugvöllinn gat maður náðarsamlega fengið að fljúga með aðalflugfélaginu á svona 40 þúsundkall á mann fram og til baka og fengið te eða kaffi, og samloku. Eftir að ESB frelsaði flugmarkaðinn er fjölbreytninn alls ráðandi. Menn geta flogið frá Lublin til Liverpool, af því að… einhver vill fljúga frá Lublin til Liverpool, óháð því hvort flugmálayfirvöldun Póllands og Bretlands hafi dreymt þessa flugleið eða ekki.

Þannig er þetta nefnilega oft. Stjórnmálamenn og stjórnarmenn í einokunarfyrirtækjum dreymir um „miðstöðvar“, að mistöð svona samgangna verði hér, miðstöð hinsegin samgangna verði þar. Innanlandsflugið hingað, millilandaflugið þangað.

Frjáls markaður býr til miklu dreifðara og betra net,“ segir Pawel í pistlinum og bætir við að fjárfestingar í flugvöllum séu af þeirri stærðargráðu að eflaust verði ekki komist hjá því að hið opinbera komi að málum.

Pawel segir að flugvöllur í Hvassahrauni myndi tengja betur saman innanlandsflug og millilandaflug sem fer í gegnum Keflavíkurflugvöll.Vísir/Vilhelm
Líst vel á nýjan flugvöll í Hvassahrauni

„En ákvarðanir um þessi mál eiga að miða að því að efla það sem við vitum að virkar og skilar neytendum árangri: frelsi og samkeppni.

Þess vegna líst mér vel á nýjan flugvöll á Hvassahrauni og myndi taka vel í það ef einhver myndi vilja taka þátt í að byggja slíka flugvöll upp. Þar væri möguleiki á að tengja íslenskt innanlandsflug við millilandaflug. Þar myndi skapast tækifæri til að búa til samkeppni við Kelfavíkurflugvöll um lendingar og afgreiðslu véla. Loks hefði slíkur flugvöllur líka talsverða vaxtarmöguleika.

Þetta eru allt miklir kostir. Uppbygging á Reykjavíkurflugvelli, á takmörkuðu landi, þar sem aldrei verður hægt að koma fyrir millilandaflugi, þar sem ekki verður hægt að tengja millilandaflug við innanlandsflug og uppbygging sem þar fyrir utan er töluvert umdeild pólitískt, hefur einfaldlega ekki þessa sömu kosti.“

Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri.Vísir
Ungliðahreyfing Viðreisnar sendi jafnframt frá sér ályktun um málið í dag þar sem áformum ráðherrans er mótmælt. Þingmennirnir Jón Steindór Valdimarsson og Hanna Katrín Friðriksson deila bæði ályktuninni á Facebook-síðum sínum en í ályktuninni segir meðal annars:

„Slíkar framkvæmdir yrðu fyrst og fremst til þess fallnar að ýta undir sundrung og skotgrafastjórnmál og flækja umræðuna um framtíð flugvallarins enn frekar. Að mati Ungliðahreyfingarinnar er hugmyndin vanhugsuð og á skjön við þarfir og óskir almennings.

Ráðherra nefnir þau rök, áformum sínum til stuðnings, að tímabært sé að byggja nýjan og betri flugvöll. Ungliðahreyfingin sýnir þeim sjónarmiðum skilning en beinir athygli ráðherra að því að sátt hefur enn ekki náðst um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Því er varhugavert að verja háum fjárhæðum í uppbyggingu flugstöðvar á þessum tímapunkti. Slíkt er hvorki skynsamleg nýting skattfjár né almannahagsmunum í vil.“

Ungliðarnir hvetja ráðherrann til að endurskoða þessi áform sín en Jón Steindór deilir ályktuninni með þeim orðum að flas sé ekki til fagnaðar.

Hanna Katrín segir svo í sinni færslu að það sé ekki öllum gefið að vera lausnamiðaðir í flóknum og erfiðum deilumálum:

„Ég er þeirrar skoðunar að framtíðarstaðsetning innanlandsflugsins sé utan miðborgar Reykjavíkur. Ennfremur, að hagsmunir okkar stærstu atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar, séu best tryggðir með því að hafa öflugt innanlandsflug beint frá alþjóðaflugvelli.

Augljóslega stendur Reykjavíkurflugvöllur þar sem hann er þar til ný lausn er fundin. Ég heyri ekki marga mótmæla því. Það er hins vegar ekki klókt að nýta sér þá afstöðu til að fara bakdyramegin að því að reyna að festa völlinn í sessi í Vatnsmýrinni. Ég er sammála ungliðahreyfingu Viðreisnar í því að slíkt sé „fyrst og fremst til þess fallið að ýta undir sundrung og skotgrafastjórnmál og flækja umræðuna um framtíð flugvallarins enn frekar.“

Staðsetningin á ekki að snúast um það hver hefur betur í störukeppninni, heldur um heildarhagsmuni okkar Íslendinga í náinni framtíð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×