Innlent

Slökkti í brennandi bíl á Sæbraut með gosdrykkjum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Sæbraut, myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Frá Sæbraut, myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/Haraldur
Bíll valt á Sæbraut við Laugarnesveg á fjórða tímanum í nótt. Talið er að eldur hafi kviknað í bifreiðinni en í dagbók lögreglu segir að vegfarandi hafi náð að ráða niðurlögum hans með tveimur og hálfum lítra af gosdrykkjum.

Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar. Eftir aðhlynninguna var ökumaðurinn vistaður í fangageymslu lögreglunnar vegna rannsóknar málsins. Talið er að hann hafi ekið undir áhrifum áfengis eða annrra vímugjafa.

Í það minnsta 13 aðrir ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöldi og nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum.

Þá var maður í „mjög annarlegu ástandi“ handtekinn við Naustin grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu vegna málsins en ekki er vitað um meiðsl þess sem fyrir árásinni varð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×