Keppendur í hjólreiðakeppninni Gullhringnum héldu áfram keppni eftir alvarlegt slys við Brúará fyrr í kvöld er fimm hjólreiðamenn skullu saman. Einar Bárðarson, talsmaður keppninnar, segir þá sem stadda voru fyrir aftan slysið hafa hjólað saman í halarófu í mark og mikil samkennd ríki í hópnum.
Keppni þeirra sem staddir voru fyrir aftan slysið í kvöld var breytt í samhjól í fylgd björgunarsveita og hún kláruð við Laugarvatn. Keppendur fyrir framan slysið héldu áfram keppni.
Í samtali við Vísi segir Einar að samhugur ríki í hópnum sem safnaðist saman í grillveislu að loknum hjólreiðum.
„Allir sem voru fyrir aftan slysið, þeirri keppni var hætt og þeir hjóluðu í skemmtilegri halarófu inn á Laugarvatn og eru hér í góðum gír í grillveislu,“ segir Einar.
„Þannig að við ætlum að eiga góða stund saman og það er mikil samkenndarstemning í mönnum.“ Hann segir hug aðstandenda keppninnar enn fremur vera hjá þeim slösuðu.
Þá segir Einar að einn keppenda, sem lenti í slysinu, hafi sent frá sér stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann var í sjúkrabíl á leið á spítala. Sá segir líðan sína hafa verið betri en fyrst á horfðist.
Fimm hjólreiðamenn skullu saman á Skálholtsvegi við Brúará nú í kvöld. Einn er talinn alvarlega slasaður og þrír minna slasaðir. Sá fimmti er talinn hafa sloppið ómeiddur. Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð á staðinn til að flytja slasaða á sjúkrahús.
Hjóluðu í mark á Laugarvatni í samkenndarhug
Tengdar fréttir
Hjólreiðakeppnin Gullhringurinn stöðvuð vegna alvarlegs hjólreiðaslyss
Sjónarvottur segir mikinn viðbúnað á svæðinu en enn er ekki mikið vitað um slysið.