Innlent

Kuldinn er ekkert á förum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er kuldi í kortunum og þá er eina vitið að hlýja sér með heitum drykk.
Það er kuldi í kortunum og þá er eina vitið að hlýja sér með heitum drykk. Vísir/Getty
Kuldinn sem herjað hefur á landsmenn undanfarna daga er kominn til að vera. Veðurfræðingurinn Trausti Jónsson segir kuldapollinn sem plagaði Vestur-Grænland fyrr í vikunni hafa verpt „kuldaeggi“ sem nú sé á leið austur, rétt fyrir sunnan land. Það hafi valdið staðbundnum skúradembum og svölu veðri - sérstaklega um landið sunnanvert.

„Við að skjóta eggi til austur hrökk meginhluti kuldapollsins í öfuga átt - til vesturs - og hörfaði mesti kuldinn þar með frá Vestur-Grænlandi,“ útskýrir Trausti á bloggi sínu og bætir við að nú virðist annað varp vera að eiga sér stað.

Trausti Jónsson
Annar lítill kuldapollur sé að verða til og hann stefni einnig á Ísland.

Hann muni koma til að tefja hlýnun hér á landi í að minnsta kosti nokkra daga.

„Sem stendur sér ekkert fyrir endann á þessari stöðu. Hún er í grunninn ekki svo slæm (segir Pollýanna) - en samt má heyra að margir eru farnir að þreytast á henni og gætir töluverðrar óþolinmæði. Það er um að gera að njóta í botn þeirra gæðastunda sem bregður fyrir - þó hlýindi skorti,“ segir bjartsýnn Trausti á blogginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×