Innlent

Óttast bílastæðaskort við Keflavíkurflugvöll

Sæunn Gísladóttir skrifar
Útlit er fyrir að öll bílastæðin við Leifsstöð fyllist í sumar.
Útlit er fyrir að öll bílastæðin við Leifsstöð fyllist í sumar. Vísir/Pjetur
Útlit er fyrir mikla umferð um Keflavíkurflugvöll næstu vikur og gætu hefðbundin stæði við Leifsstöð fyllst. Þetta segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

„Það er mikil notkun á bílastæðum og nýting á þeim. Það er alveg búist við því að þau muni fyllast í sumar, í júlí sérstaklega. En þá erum við að taka í notkun 750 stæði sem við höfum upp á að hlaupa ef þetta kemur upp. Það er mikil aukning, því stæðin eru um 2.000,“ segir Guðni.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.
Hann segist vonast til þess að aukastæðin komi inn í áföngum. Verkinu á að ljúka 31. júlí. „Við stækkuðum um 350 stæði í fyrra og svo er þetta í raun grunnur undir 750 stæði í viðbót. Hægt verður að nota grunninn ef upp kemur svipuð staða og um páskana en þar verða svo lögð fullbúin stæði á næsta ári.“ Guðni segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um breytingar á gjaldskránni en gjöldin hækkuðu í fyrra.

Í lok maí var tilkynnt um að í sumar gætu farþegar Icelandair, WOW og Primera innritað sig frá og með miðnætti í morgunflug. Staðan hafði þá verið þannig síðustu misseri að um 150 til 200 farþegar dvöldu að jafnaði í flug­stöðinni á nótt­unni á meðan þeir biðu eft­ir að geta inn­ritað sig í morg­un­flug. Talið var að þessi farþega­fjöldi gæti farið allt upp í 300 til 400 í sum­ar.

Guðni segir að um 200 til 400 manns nýti sér þessa þjónustu daglega. „Þeir sem nýta sér þetta mest eru þeir sem hafa verið að koma á miðnætti og sofa í einum hluta af salnum áður. Það munar miklu upp á ásýnd og pláss í innritunarsalnum að þessir farþegar fari þá inn á svæði og séu ekki í svefnpokum upp um alla veggi. Þetta hefur gefist vel,“ segir Guðni.

Hann segir að á álagstímum hafi gengið vel að raða inn, sá heildartími sem það taki farþega að komast í gegn sé góður og öryggisleitin hafi gengið mjög hratt. „Við vonum að þetta muni halda svona áfram í sumar, júlí og ágúst eru stærri en júní en við vonum að þetta muni ganga.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×