Innlent

Tekinn réttindalaus á nagladekkjum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla stöðvaði þrjá ökumenn sem keyrðu réttindalausir í gær.
Lögregla stöðvaði þrjá ökumenn sem keyrðu réttindalausir í gær. Vísir/Eyþór
Lögregla stöðvaði þrjá ökumenn sem óku réttindalausir í gær og tvo sem óku mót rauðu ljósi. Einn ökumannanna, sem uppfyllti bæði áðurtalin skilyrði, var einnig á nagladekkjum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á sjöunda tímanum í gærkvöldi var bifreið stöðvuð á Hverfisgötu við Snorrabraut eftir að bifreiðinni hafði verið ekið yfir gatnamót mót rauðu ljósi. Ökumaður bifreiðarinnar reyndist ökuréttindalaus og bifreiðin var þar að auki á negldum hjólbörðum.

Þá var önnur bifreið stöðvuð um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi á Laugavegi eftir að hafa verið ekið yfir gatnamót mót rauðu ljósi.

Um hálf átta í gærkvöldi var bifreið stöðvuð á Reykjanesbraut við Bústaðaveg en ökumaðurinn reyndist sviptur ökuréttindum. Þá var bifreið hans ótryggð en skráningarmerki hennar voru klippt af. Um klukkutíma síðar var enn önnur bifreið stöðvuð í Fossvogi en ökumaður hennar ók einnig sviptur ökuréttindum. Þá er hann einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Tvær bifreiðar voru auk þess stöðvaðar í nótt, önnur á Reykjanesbraut og hin við Hvaleyrarbraut, en ökumenn eru grunaður um akstur undir áhrifum vímugjafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×