Tæplega 75 lögregluþjónar eru særðir eftir átök við mótmælendur í Hamborg þar sem fundur G-20-ríkjanna fer fram, að sögn lögreglu. Flugmenn lögregluþyrlu hlutu augnskaða þegar leysibendum var beint að þeim.
Reuters-fréttastofan hefur eftir þýsku lögreglunni að þrír lögreglumenn hafi þurft að leita á sjúkrahús. Sjónarvottur fréttastofunnar segist hafa séð að minnsta kosti einn blóðugun mótmælanda að fá aðhlynningu.
Óeirðir brutust út í mótmælagöngu í borginni í dag. Lögregluþjónar beittu vatnsþrýstibyssum og táragasi á mótmælendurnar sem köstuðu flöskum, steinum og blysum á móti.
G-20-fundurinn hefst af alvöru á morgun. Búist er við erfiðum viðræðum en mikið ber á milli Bandaríkjamanna og annarra þjóða, sérstaklega hvað varðar loftslagsmál og alþjóðleg viðskipti.
G-20: Tugir lögreglumanna sárir eftir mótmælin í Hamborg

Tengdar fréttir

G20-fundurinn: Óeirðir í Hamborg
Óeirðir brutust út í mótmælagöngu gegn G20-fundinum í Hamborg í dag. Að minnsta kosti einn er sagður alvarlega slasaður eftir átök mótmælenda og lögreglumanna.