Innlent

Íslendingar trassa enn innleiðingu á EES-gerðum

Atli Ísleifsson skrifar
Frammistöðu Íslands hrakar frá síðasta mati og eru nú átján tilskipanir sem bíða innleiðingar.
Frammistöðu Íslands hrakar frá síðasta mati og eru nú átján tilskipanir sem bíða innleiðingar. vísir/ernir
Ísland stendur sig enn og aftur einna verst við innleiðingu á tilskipunum og reglugerðum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta kemur fram í uppfærðu frammistöðumati ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í frétt á vef ESA segir að frammistöðu Íslands hrakar frá síðasta mati og eru nú átján tilskipanir sem bíða innleiðingar. Það þýðir að innleiðingarhallinn eykst og er nú 2,2 prósent, vel yfir meðaltali aðildarríkja Evrópusambandsins sem er 1,5 prósent. Þannig eru fjórar tilskipanir eldri en tveggja ára og ein níu ára.

Í skýrslunni kemur fram að frammistaða Íslands valdi enn á ný vonbrigðum á öllum sviðum og eru íslensk stjórnvöld hvött til að grípa til aðgerða og sýna stuðning sinn við EES-samninginn í verki.

Noregur með lægsta innleiðingarhallann

Frammistöðumatið sýnir hvernig stjórnvöldum á Íslandi, Liechtenstein og Noregi gengur að innleiða tilskipanir og reglugerðir innri markaðarins á réttum tíma. Frammistaðan er þar borin saman við frammistöðu hinna 29 EES-ríkjanna.

„Meginniðurstaða frammistöðumatsins er sú að Noregur, ásamt einu ríki Evrópusambandsins, er með lægsta innleiðingahallan af öllum EES-ríkjunum. Framfarir hjá Liechtenstein verða til þess að ríkið er meðal þeirra tíu ríkja sem standa sig best. Ísland stendur sig aftur einna verst meðal EES-ríkjanna.

Í frammistöðumatinu má sjá að Noregur heldur áfram að standa sig vel og aðeins bíða þrjár tilskipanir þess að vera innleiddar að fullu. Fyrir vikið er innleiðingarhalli Noregs aðeins 0,4%. Frammistaða Liechtenstein heldur áfram að batna og aðeins eru sjö tilskipanir sem bíða innleiðingar. Innleiðingarhallinn er 0,9%.

Hins vegar hrakar frammistöðu Íslands og eru átján tilskipanir sem bíða innleiðingar. Það þýðir að innleiðingarhallinn eykst og er nú 2,2 prósent. Það er vel yfir meðaltali aðildarríkja Evrópusambandsins sem er 1,5 %.

Innleiðingarhallinn tekur aðeins til þeirra gerða sem EFTA-ríkin hafa skuldbundið sig til að innleiða á grundvelli EES-samningsins. Tilgangurinn með frammistöðumatinu er að fylgjast með því að aðildarríkin standi við þær skuldbindingar sínar og tryggi þar með fullan ávinning af EES-samningum fyrir alla hagsmunaaðila.  Tímanleg innleiðing sameiginlegra reglna er forsenda þess að hægt sé að tryggja jafnræði á innri markaðnum og öll EES ríkin eru skuldbundin til að virða tímamörk í því efni,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×