Innlent

Bibbi í Skálmöld gagnrýndur fyrir femínistapistil en stendur við hvert orð

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Snæbjörn Ragnarsson, skrifaði pistil á Stundinni þar sem hann gagnrýnir það að geta ekki fengið að kalla sig femínista.
Snæbjörn Ragnarsson, skrifaði pistil á Stundinni þar sem hann gagnrýnir það að geta ekki fengið að kalla sig femínista. Fréttablaðið/Ernir
Snæbjörn Ragnarsson, einnig þekktur sem Bibbi og bassaleikari hljómsveitarinnar Skálmaldar, skrifaði umdeildan pistil sem birtist á Stundinni í dag sem ber titilinn Ég er ekki femínisti. Þar fjallar hann um afstöðu sína til femínismans og tilkynnir að hann sé jafnréttissinni en ekki femínisti þar sem hann „geti ekki fallist á þau skilyrði sem sjálfskipaðir forsprakkar femínismans“ setji sér. 

Ummæli Snæbjörns hafa farið öfugt ofan í marga og hefur meðal annars systir hans, Helga Ragnarsdóttir leikkona, skrifað opið bréf til bróður síns á Facebook. Þar gagnrýnir hún orð hans og segir meðal annars:

„Ef fólk með ítök ætlar að hafa hátt um skoðanir sínar í fjölmiðlum er það lágmarkskrafa að kynna sér fræðin áður en maður myndar sér skoðun. Þú hefur til að mynda áhrif á margan ungan manninn og nú hafa margir fengið leyfi til að kalla sig ekki femínista án þess að vita hvað það þýðir, því „Bibbi í Skálmöld sagði það“,“ segir Helga.

Þá hefur Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, einnig gagnrýnt orð hans á Facebook síðu sinni. Twitter-heimur hefur einnig ekki látið sitt eftir liggja og nokkrir sem setja spurningarmerki við pistil Snæbjörns.

Femínisti í hjarta

Í samtali við Vísir segir Snæbjörn að hann sé svo sannarlega femínisti í hjarta. Hins vegar hafi gagnrýni hans legið að því þegar fólk segir hann ekki vera femínista þar sem hans hugmyndir falli ekki undir þeirra skilgreiningu á hugtakinu.

Samkvæmt öllum skilgreiningum er ég femínisti. Þessi skrif fjalla miklu meira um það að það er fólk út í bæ sem segir mér að ég sé ekki femínisti af því ég er einhvern veginn. Ef ég segi frá hlutum eins og ég sjái þá og það fellur ekki undir skilgreiningu þeirra sem lesa eða hlusta, þá segja þeir við mig að ég sé ekki femínisti,“ segir Snæbjörn.

„Það er eins og maður megi ekki hafa skoðun sem fellur ekki nákvæmlega undir hörðustu skilgreiningar femínistans að þá ertu bara út í kuldanum og mátt ekki kalla þig femínista. En auðvitað er ég femínisti,“ bætir Snæbjörn við.

Hann telur að fólk þurfi að hætta að rífast um skilgreiningu femínismans innbyrðis því allir séu í raun sammála um hvert markmiðið er. Því ætti að gera eitthvað í málunum í staðinn.

Meðvitaður um vandamálið

Snæbjörn bendir á að hann sé alltaf að passa sig á að víkka út sjónarhornið.

„Ég er að vinna á auglýsingastofu og það er mjög, mjög auðvelt að falla í einhvern karlægan ógeðsgír. Maður þarf bara í alvöru að passa sig og það er drullu sorglegt að þú þurfir að passa að það sé ekki verið að tala um allt út frá karlægum sjónarhornum,“ segir Snæbjörn. 

Sjálfsagður hlutur

Hann segir að sterkasta vopnið í jafnréttisumræðunni sé að líta svo á að konur og karlar séu jöfn. Það sé sjálfsagður hlutur og það þurfi að vinna samkvæmt þeim gildum.

„Að láta ekki soga sig inn í þessa asnalegu umræðu að það sé munur á okkur; að við þurfum ekki að ræða það sérstaklega okkar á milli hvort við séum að fá sömu laun fyrir sömu vinnu heldur bara taka þetta út af dagskrá og vinna samkvæmt þeim gildum að þetta sé svoleiðis,“ útskýrir Snæbjörn.

Varðandi ummæli hans um svokallaða „forsprakka femínismans“ segist Snæbjörn ekki vilja nefna nein nöfn en að hann hafi ekki haft neinn hóp sérstaklega í huga. Jafnframt segist hann standa við allt það sem kemur fram í pistlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×