Lífið

Júlíspá Siggu Kling – Krabbinn: Hættu að ritskoða allt sem þú segir

Elsku Krabbinn minn. Það ert þú sem heldur því uppi að lífið sé að gerast. Þú hefur svo mikla einlægni og faðmar að þér svo marga og það er svo mikilvægt að þú skoðir að feimni er ekki vinur þinn. Þegar þú sleppir henni þá halda þér engin bönd, þegar þú heldur að enginn sé að dæma þig þá dæmir þig enginn, því að þín eigin orka skapar þig.

Ef þú ert inni í skel og hefur ekki traust á því hvað þú getur þá náttúrulega getur þú ekki gert neitt. Og þá er það bara þér að kenna, ekki foreldrum þínum, ekki aðstæðum heldur bara sjálfum þér! Ef þú skoðar það vel eru þetta skilaboð frá huganum og heilanum til þín sem eru bara blekking. Ef þú veist ekki alveg hvað þú vilt gera og ert hræddur, fáðu þá lánaða dómgreind frá þinni bestu vinkonu eða vini til þess að ráðleggja þér með hvað þú í raun vilt og hvert þú vilt fara.

Hugurinn er ekki sálin, heldur er hugurinn sem og heilinn yfirleitt það afl sem laðar að sér neikvæðni og þú skalt alls ekki leika þér við neikvæðni. Um leið og þú gefur þér frelsi til að vera hinn frábæri þú án þess að óttast nokkurn skapaðan hlut muntu svífa yfir vandamálin eða neikvæðnina því að þau eru bara send þér til að gera lífið meira spennandi!

Að sjálfsögðu verðurðu misskilinn því þú talar ekki alltaf nógu skýrt, en steinhættu samt að ritskoða allt sem þú segir því þú ert svo elskaður akkúrat fyrir orð þín. Góð sambönd munu birtast á þessu sumri og erfið sambönd munu batna með kærleika og ást. Þú færð mikið af tækifærum í sambandi við vinnu og frama, sumir hafa enga ánægju eða tilhlökkun yfir frama, en frami er bara það sem þú skilgreinir sem hamingju. Þú getur verið besta sjoppukonan eða besti sjónvarpsmaðurinn, skiptir ekki máli, því þetta eigið þið Krabbar sameiginlegt: að vilja verða bestir í því sem þið viljið.

Þú átt það til að láta annarra manna tilfinningar lama þig, því þú elskar fólk. Annarra manna erfiðleikar lama þig, og þá hefur þú ekki kraft til að veita lífi þínu í þann farveg sem þú vilt. En þú getur ekki stjórnað öllu þótt þú sért Krabbi, en þú átt það til að vilja stjórna öllu til að breyta til blessunar eða lagfæringar. En taktu þér frí frá þessum eiginleika þínum í sumar og leyfðu þér að fljóta eins og sjávardýrið sem þú ert.

Alls ekki fjárfesta í einhverju sem getur étið þig, ekki taka stórar ákvarðanir sem geta spilað með frelsi þitt, því þú sérð allt miklu skýrara þegar haustið og veturinn koma með skilaboð til þín. Svo núna skaltu bara leyfa þér að njóta og leyfa þér að vera hinn dásamlegi Krabbi sem þú ert!

Mottóið þitt er: Þetta MÁ, þetta MÁ, þetta MÁ – setning eftir Emmsjé Gauta.

Ást og friður, Sigga Kling

Frægir Krabbar: Bryndís Schram, Sigga Lorange Ostabúðarskvísa, Auddi Blö, sem við elskum öll, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og dúlla, Ólafur Stefánsson, handboltakappi og heimspekingur, Edda Sif, Sindri Sindrason, Ásdís Halla Bragadóttir, Hjörvar Hafliðason og Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari, Davíð hinn góði skóari í Hafnafirði, Stefán Árni Pálsson fréttamaður, Th. forseti Íslands, Friðbjörn Europartakóngur, Yesmine Olsen, höfundur og framleiðandi, George Michael, Kristófer Helgason, dagskrágerðamaður, Nuno Alexandre Bentin Servo veitingahúsakóngur, Helga Hafsteinsdóttir, hárgreiðsluséní á Akureyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.