Innlent

Eldur á Egilsstöðum

Stefán Ó. Jónsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Eldur kom upp í veitingastaðnum Salt Cafe & Bistro á Egilsstöðum nú í morgun.

Eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan lagði mikinn reyk frá húsinu sem stendur við Miðvang 2 til 4 í miðbæ Egilsstaða, en í húsinu eru fjölmörg fyrirtæki með starfsemi.

Í samtali við Vísi segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri hjá AFL Starfsgreinafélagi, sem er með starfsstöð í húsinu að það hafi verið rýmt um klukkan hálf 11 í morgun.

Áætlaði hann að einhverjir tugir hafi verið í húsinu þegar eldsins varð vart. Slökkviliðið er enn að störfum og er ekki vitað hvenær starfsmönnum verður hleypt inn í húsið á ný.

Að sögn fréttamanns Ríkisútvarpsins fyrir austan virðist sem upptök eldsins hafi verið í eldhúsi veitingastaðarins og að greiðlega hafi gengið að slökkva hann.

Um tíma hafi þó logað glatt í reykháfnum sem virtist vera fullur af fitu eða öðru nokkuð eldfimu efni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×