Þeir sem grunaðir eru um að hafa skotið niður MH17, vél Malaysia Airlines, yfir austurhluta Úkraínu árið 2014 verða sóttir til saka fyrir hollenskum dómstólum.
Hollenska utanríkisráðuneytið staðfesti þetta í morgun, en lagði áherslu á að áfram verði stefnt að alþjóðlegri samvinnu í málinu. Nöfn yfir grunaða hafa enn ekki verið gerð opinber.
Hollendingar sóttust eftir að sérstökum alþjóðlegum dómstól yrði komið á fót til að sækja grunaða til saka, en rússnesk stjórnvöld lögðust gegn slíku árið 2015.
Allir 298 um borð í vélinni létu lífið þegar vélinni var grandað. Fólkið um borð var samtals frá sautján ríkjum, en flestir, eða 196, voru frá Hollandi.
Árið 2015 leiddi rannsókn hollenskra yfirvalda í ljós að rússneskt Buk-flugskeyti hafi grandað vélinni og í september í fyrra greindu rannsakendur frá því að skeytinu hafi verið skotið á loft frá landsvæði sem var undir yfirráðum aðskilnaðarsinna á bandi Rússlandsstjórnar.
Boeing 777-vélin var á leið frá Amsterdam til malasísku höfuðborgarinnar Kuala Lumpur þann 17. júlí 2014 þegar hún var skotin niður.
MH17: Grunaðir verða sóttir til saka í Hollandi
Atli Ísleifsson skrifar
