Erlent

Varar Kim Jong-un við að fara yfir strikið

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Pyongyang fylgjast með fréttum af eldflaugaskotinu.
Íbúar Pyongyang fylgjast með fréttum af eldflaugaskotinu. Vísir/AFP
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, varar Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, við að fara ekki yfir strikið. Hann fer fram á að nágrannar sínir í norðri hætti ögrununum sínum og segir að fari þeir yfir strikið verði afleiðingarnar óljósar. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, spyr hvort að Kim hafi ekkert annað að gera í lífinu og segir að þolinmæði Suður-Kóreu og Japan sé að þrotum komin.

Sérfræðingar efa að eldflaugavopna- og kjarnorkuáætlanir Norður-Kóreu hafi náð þeim hæðum sem yfirvöld þar í landi segja, en ljóst er að miklum árangri hefur verið náð.

Nær mögulega til Alaska

Norður-Kórea tilkynnti nú í morgun að tilraunaskot langdrægar eldflaugar hefði tekist. Því var haldið fram í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu að Hwasong-14 eldflaugin gæti hitt skotmörk „hvar sem er í heiminum“, sem þykir mjög hæpið.

Vísir/GraphicNews
Þá kom fram að eldflaugin hafi verið á lofti í um 39 mínútur, hafi farið í um 2,802 kílómetra hæð og flogið 933 kílómetra. Hún lenti í Japanshafi.

Yfirlýst markmið Norður-Kóreu er að þróa langdrægar eldflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn til Bandaríkjanna. Það fæli í sér minnst átta þúsund kílómetra ferðalag. Auk þess þyrfti ríkið að þróa kjarnorkuvopn sem eru í senn kröftug og smá, svo hægt sé að koma þeim fyrir í eldflaugum. Þá þyrftu sprengjurnar að vera verulega harðgerðar til þess að þola hitann, titringinn og álagið sem fylgir því að fljúga aftur inn í gufuhvolfið.

Norður-Kórea segir að þeim hafi tekist að þróa slík kjarnorkuvopn, en það hefur ekki verið staðfest og þykir ótrúverðugt.

Í samtali við BBC segir eðlisfræðingurinn David Wright að ef fregnir af flugi eldflaugarinnar séu réttar ætti hún að geta farið um 6.700 kílómetra. Þannig gæti Norður-Kóreu skotið kjarnorkuvopni til AlaskaHwasong-14 eldflaugin myndi ekki drífa til Hawaii eða nokkurra annarra ríkja í Bandaríkjunum.

Moon hefur kallað eftir neyðarfundi hjá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt frétt Yonhap fréttaveitunnar í Suður-Kóreu, telja embættismenn að þvinganir gegn Norður-Kóreu verði hertar enn fremur.

Kemur Kína til bjargar?

Donald Trump tísti um eldflaugaskotið í nótt. Þar spurði hann hvort að Kim Jong-un hefði ekkert betra að gera við líf sitt og hvatti hann Kínverja til að beita sér af afli gegn vopnaætlunum Norður-Kóreu. Trump hefur áður biðlað til Kínverja að beita Pyongyang þrýstingi en það hefur ekki borið árangur.

Stjórnvöld í Washington hafa lýst yfir vonbrigðum með Kína og nú í síðustu viku beittu stjórnvöld þar þvingunum gegn kínverskum banka og meintra tengsla hans við Norður-Kóreu.

Trump ræddi við Xi Jinping, forseta Kína, í síma á sunnudaginn. Fjölmiðlar í Kína segja Xi hafa varað Trump við því að samband ríkjanna hafi beðið hnekki. Þá segir New York Times að Trump hafi tilkynnt kínverska forsetanum að Bandaríkin gætu gripið til einhliða aðgerða gegn Norður-Kóreu.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna virðist, samkvæmt AP fréttaveitunni, hafa skilgreint eldflaugin sem meðaldræga og hafa ekki staðfest að um langdræga flaug hafi verið að ræða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×