Erlent

Norður-Kórea segist hafa skotið langdrægri eldflaug á loft

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá tilraunaskoti Norður-Kóreu í maí síðastliðnum.
Frá tilraunaskoti Norður-Kóreu í maí síðastliðnum. Vísir/AFP
Yfirvöld Norður-Kóreu hafa skotið á loft eldflaug sem lenti í Japanshafi. Samkvæmt frétt AP-fréttaveitunnar er tilraunaskotið það best heppnaða til þessa. Þá segja yfirvöld Norður-Kóreu að um hafi verið að ræða fyrsta tilraunaskot sitt á langdrægri eldflaug (ICBM).

Smáatriði í kringum skotið eru enn nokkuð á huldu en eldflauginni, sem talið er að gæti náð til Alaska í Bandaríkjunum, var skotið á loft frá Norður-Phyongan-héraði í vesturhluta Norður-Kóreu. Eldflaugin var á lofti í um 37 mínútur, sem er besti árangur tilraunaskots frá Norður-Kóreu til þessa, og flaug um 930 kílómetra. Talið er að hún hafi lent í Japanshafi.

Yfirvöld Norður-Kóreu segja að um hafi verið að ræða fyrsta tilraunaskot sitt á langdrægri eldflaug (ICBM) en áður hafði verið talið að eldflaugin væri miðdræg.

Flauginni var skotið á loft um 9:40 að staðartíma eða 00:40 að íslenskum tíma. Þá vekur dagsetning skotsins athygli en í dag, 4. júlí, er þjóðhátíðardagur Bandaríkjamanna.

Skotið er númer ellefu í hrinu tilraunaskota frá Norður-Kóreu á þessu ári en ríkið hefur lengi haft það að yfirlýstu markmiði að koma fyrir svokölluðum „kjarnaoddi“ á langdræga eldflaug sem næði til skotmarka um allan heim.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Enn eitt tilraunaskot Norður-Kóreu

Her Suður-Kóreu segir nágranna sína hafa skotið ótilgreindri gerð eldflauga á loft, sem flaug í um 500 kílómetra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×