Fyrirtaka í máli Ástráðs Haraldssonar gegn ríkinu var í dag. Ákveðið var að aðalmeðferð skyldi haldinn 11. ágúst næstkomandi. Ríkið skilaði inn greinargerð sem og gögnum sem nauðsynleg eru en Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Ástráðs, segir ekki útilokað að fleiri gögn gætu komið inn í málið.

Jóhannes segir jafnframt að málið hafi fengið þá flýtimeðferð sem óskað var eftir.
„Það var reynt að hraða þessu. Núna eru dómstólarnir í svona hálfgerðu réttarhléi í júlí og ágúst. Þetta mál er samt flutt á meðan og svo ef það fer í hæstarétt þá er styttri áfrýjunarfrestur heldur en í venjulegum málum. Þá gengur allt hraðar fyrir sig,“ segir Jóhannes.
Málið kemur í kjölfar ákvörðunar Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra að fara á svig við lista hæfisnefndar um hverjir væri taldir hæfastir í hlutverk dómara við Landsrétt. Dómnefnd mat Ástráð fjórtánda hæfastan en hann náði ekki inn á lista dómsmálaráðherra.