Lífið

Fyrsta platan komin út eftir fimm ára starfsemi

Guðný Hrönn skrifar
Milkhouse var stofnuð þegar meðlimir voru í 10. bekk.
Milkhouse var stofnuð þegar meðlimir voru í 10. bekk. MYND/BOLLI MAGNÚSSON
Hljómsveitin Milkhouse var að gefa út sína fyrstu breiðskífu. Bandið hefur verið starfandi í fimm ár þrátt fyrir frekar ungan aldur hljómsveitarmeðlima en þau eru öll fædd árið 1996. Nýja platan ber heitið Painted Mirrors. Milkhouse samanstendur af þeim Vict­ori Karli Magnússyni, Auðuni Orra Sigurvinssyni, Andrési Þór Þorvarðarsyni, Katrínu Helgu Ólafsdóttur og Sævari Andra Sigurðarsyni. „Hljómsveitin Milkhouse var stofnuð vorið 2012. Meðlimir hennar voru þá í 10. bekk en þekktust fyrir, þar sem þau voru nemendur í grunnskólum í Hafnarfirði og öll í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar,“ segir Victor spurður út í hljómsveitina sem hann er meðlimur í.

„Rætur tónsmíðanna liggja í djassi en nýir áhrifavaldur og aukin reynsla hefur fært tónlistina einhvert allt annað. Erfitt er að máta hana við tiltekna tónlistarstefnu en e.t.v. mætti staðsetja hana á vegamótum lista-rokks og drauma-popps. Áhrifavaldarnir eru margir, enda meðlimirnir fimm,“ segir Victor um Milkhouse sem var valin Hljómsveit fólksins á úrslitakvöldi Músíktilrauna 2014.

Í síðustu viku gaf bandið út sína fyrstu breiðskífu sem ber heitið Painted Mirr­ors.

„Painted Mirrors er tólf laga plata. Lögin eru mörg hver ólík en þrátt fyrir það er heildarsvipur á plötunni; eitthvert samhengi sem situr eftir. Lögin fjalla um mannleg samskipti og sambönd: sambönd vina, fjölskyldna og elskhuga.“

„Enn fremur fjalla þau um hvernig við sem einstaklingar smíðum eigin sjálfsmynd eftir því hvaða sambönd við kjósum að rækta eða ekki. Titill plötunnar vísar að einhverju leyti í það. Einstaklingurinn reynir eftir bestu getu að mála eða skapa spegilmynd sína, en er þó ávallt berskjaldaður fyrir því hvernig samfélagið sér hann.“

Gífurleg vinna að bakiAðspurður hvernig hafi gengið að vinna þessa fyrstu plötu hljómsveitarinnar segir Victor: „Það gekk vel. Vinnan sem liggur að baki er gífurleg, en sú vinna var bæði gefandi og skemmtileg. Ætlunin var að vinna þetta af mikilli vandvirkni og það tókst, einkum vegna frábærra samstarfsfélaga, en þeir Gestur Sveinsson og Tómas Guðmundsson stýrðu upptökum og eftirvinnslu. Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir hannaði plötuumslagið og Agnar Freyr Stefánsson sá um umbrotið, og vorum við afar ánægð með útkomuna. Afmynduð brjóstmynd prýðir umslagið, en manneskjan er sett saman úr andlitum allra hljómsveitarmeðlima og vísar aftur að einhverju leyti í titil plötunnar,“ útskýrir Victor. Hann segir þau öll í hljómsveitinni vera mjög stolt af afurðinni. „Ég er sérlega stoltur af þeirri staðreynd að allir aðstandendur plötunnar eru ungir. Hljómsveitin, upptökustjórar, grafískir listamenn, við erum öll um tvítugt. Grósku er bersýnilega að finna í íslensku listalífi, ef þú spyrð mig.“

Til viðbótar við plötuútgáfuna sendi hljómsveitin líka frá sér tónlistarmyndband við lagið Say My Name. „Tónlistarmyndbandið við Say My Name var frumsýnt í síðustu viku, þegar platan kom út. Myndbandið segir sögu tveggja einstaklinga, en sjón er sögu ríkari,“ segir Victor sem hvetur áhugasama til að horfa á myndbandið á YouTube.

Hvað er svo fram undan?

„Við höldum útgáfutónleika í Iðnó á föstudaginn þar sem hópur tónlistarmanna mun spila með okkur. Miðar eru til sölu á Tix.is og í Iðnó. Svo eru fleiri tónlistarmyndbönd væntanleg á næstu vikum og mánuðum.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.