Glódís Perla Viggósdóttir og stelpurnar okkar hefja leik á EM 2017 í fótbolta í kvöld þegar þær mæta stórliði Frakklands á Konunglega Willem II-vellinum í Tilburg klukkan 18.45 að íslenskum tíma í kvöld.
Spennan er búin að vera mikil fyrir leiknum enda áhugi þjóðarinnar á stelpunum og leikjum þeirra mikill. Engin þjóð seldi fleiri miða á leiki síns liðs.
Kveðjuathöfnin í Leifsstöð síðastliðinn föstudag var mögnuð stund en nú þurfa íslensku leikmennirnir að gleyma þessu öllu og takast á við eitt besta lið mótsins í kvöld.
„Ég held að við séum allar komnar yfir þetta allt saman. Við ákváðum það á fyrsta degi þegar að við mættum hingað að þetta væri allt bara búið,“ segir Glódís Perla.
„Nú er þetta í okkar höndum. Við þurfum að sýna að við erum þess alls verðugar og nú er bara mikil spenna fyrir því að byrja þetta á mót,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir.
Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
