Innlent

Öryggisstjóri United Silicon: „Má segja að við höfum farið of snemma af stað“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kísilver United Silicon í Helguvík.
Kísilver United Silicon í Helguvík. Vísir/Vilhelm
Þegar starfsmenn United Silicon unnu við töppun og útsteypingu kísilmálms síðastliðna nótt yfirfylltist ílát með þeim afleiðingum að bráðinn málmur lenti á gólfi verksmiðjunnar. Þá gaus upp mikill reykur í byggingunni.

Slökkviliðsmenn mættu á staðinn klukkan þrjú í nótt og var það í þriðja skipti á þremur mánuðum sem slökkviliðið er kallað að verksmiðjunni.

„Það er ekki hægt að segja að það hafi gengið allt eins og dans á rósum hjá okkur. Það má segja að við höfum farið of snemma af stað, það gæti verið ein skýringin," segir Kristleifur Andrésson, öryggisstjóri verksmiðjunnar.

Hann segir starfsmenn vel þjálfaða en þeir séu reynslulitlir.

„Þetta er fyrsta kísilmálmverksmiðja á Íslandi og við höfum ekki úr reynslumiklum starfsmönnum að velja. Það er langt ferli að læra á svona verksmiðju."

Beðið er eftir að málmurinn kólni svo hægt verði að meta skemmdir og ekki er vitað fyrir víst hvenær ofninn verður settur aftur í gang. Að sögn starfsfólks Umhverfisstofnunar verður metið á næstu dögum hvaða þýðingu atvikið hafi fyrir rekstur og stöðugleika ljósbogaofnsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×