Innlent

Áslaug áfrýjar túlkadómi

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Áslaug Ýr Hjartardóttir hyggst taka lán fyrir Svíþjóðarferðinni.
Áslaug Ýr Hjartardóttir hyggst taka lán fyrir Svíþjóðarferðinni. vísir/anton brink
Áslaug Ýr Hjartardóttir hyggst áfrýja dómi héraðsdóms um að ríkinu beri ekki skylda til að greiða fyrir túlkaþjónustu hennar vegna sumarbúða í Svíþjóð, að sögn lögmanns hennar. Hún ætlar að taka lán fyrir ferðinni.

Áslaug, sem er daufblind, óskaði eftir því við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra að greitt yrði fyrir túlkaþjónustu fjögurra túlka vegna sumarbúða sem hún hyggst sækja í Svíþjóð í sumar. Þeirri ósk var hafnað og höfðaði hún í kjölfarið mál gegn samskiptamiðstöðinni og íslenska ríkinu. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur féll á föstudag, ríkinu í vil.

Í dómnum segir að Áslaug eigi vegna fötlunar sinnar rétt á endurgjaldslausri táknmálstúlkaþjónustu vegna daglegs lífs, en hins vegar þurfi að gæta jafnræðis á milli notenda þjónustunnar með tilliti til þeirra fjárveitinga sem séu til ráðstöfunar.

Kostnaður vegna ferðar Áslaugar til Svíþjóðar myndi nema um átján prósentum af því fé sem samskiptamiðstöðin hafi til umráða á næstu þremur mánuðum. Fjármagnið myndi því ekki endast út tímabilið og jafnræði notenda þjónustunnar yrði þannig ekki virt. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×