Fótbolti

Guðni forseti mættur til að styðja stelpurnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Guðni Th. var mættur á Laugardalsvöll í september þegar íslenska liðið tryggði sér þátttökurétt á EM.
Guðni Th. var mættur á Laugardalsvöll í september þegar íslenska liðið tryggði sér þátttökurétt á EM. Vísir/Anton Brink
Forseti Íslands og fjölskylda hans er mætt til Hollands til að fylgjast með íslenska kvennalandsliðinu á EM í knattspyrnu og styðja stelpurnar til dáða.

Guðni Th. Jóhannesson greinir frá þessu á Facebook-síðu forsetaembættisins. Þar skrifar hann að hann og fjölskyldan séu nú komin í stutt frí til Hollands þar sem mótið fer fram.

„Við sendum þeim bestu óskir um gott gengi og hlökkum til að styðja þær til dáða, ásamt þúsundum annarra Íslendinga sem ætla að mæta á vellina hér ytra, að ekki sé minnst á fólkið heima,“ skrifar forsetinn.

Fyrsti leikur Íslands er gegn Frökkum í Tilburg á þriðjudag, 18. júlí. Næst takast stelpurnar á við Sviss í Doetinchem laugardaginn 22. júlí og síðasti leikur riðlakeppninnar er gegn Austurríkismönnum miðvikudaginn 26. júlí.

Óskaði bandístelpum einnig velgengni

Forsetinn notaði tækifærið og óskaði hópi íslenskra stúlkna sem hann hitti á leið sinni til Hollands velgengni. Þær voru á leið að keppa í bandí.

„Vonandi gengur þeim líka vel!“ skrifar Guðni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×