Innlent

Óútskýrð mengun í Grafarvogi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Óútskýrð olíumengun í Grafarvogi hefur valdið Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur miklum heilabrotum. Tilkynnt var um mengunina til eftirlitsins nú síðdegis en ekki tókst að senda starfsmenn á svæðið sökum anna.

Mengun í Grafarvoginum hefur verið vandamál á borði heilbrigðiseftirlitsins um nokkurt skeið en uppsprettan hún virðist aldrei finnast. Í dag er lækurinn inn í Grafarvogi baðaður blárri olíuslikju og grasið allt löðrandi í olíu.

Töluvert fuglalíf er í voginum og í dag mátti sjá önd með afkvæmi sín á vappi þar sem mengunin er, en öll voru þau ötuð olíu. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirlitinu hefur mengun á þessu svæði valdið miklum heilabrotum á undanförnum árum en reglulega hafa komið upp tilfelli sem á engan hátt er hægt að rekja þrátt fyrir mikla leit.

Lækurinn þar sem mengunin er í rennur í gegnum land Keldna í Grafarvogi.

Frárennsliskerfið er á svæðinu er mikið og tekur það við frárennsli af mjög stóru svæði.  Ekki var sendur starfsmaður frá heilbrigðiseftirlitinu í dag til þess að meta stöðuna sökum anna en tilkynningar um mengun á svæðinu hafa komið reglulega inn á borð eftirlitsins, síðast 5. júlí og þar áður 29. júní en ekki er vitað hvort um aðskild tilfelli er að ræða.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×