Innlent

Fjórtán starfsmönnum ekki tryggð áframhaldandi vinna hjá HB Granda

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá HB Granda á Akranesi.
Frá HB Granda á Akranesi. vísir/anton brink
Ekki hefur verið hægt að verða við óskum 14 starfsmanna af 92, sem sagt var upp hjá HB Granda á Akranesi, um áframhaldandi starf hjá fyrirtækinu. 57 starfsmönnum, sem sagt var upp, var boðið nýtt starf á öðrum starfsstöðum HB Granda.

Starfsfólkinu, sem vann við botnfiskvinnslu í starfsstöð HB Granda á Akranesi, var sagt upp störfum vegna flutninga á starfseminni til Reykjavíkur. Því var öllu gefinn kostur á að sækja um áframhaldandi vinnu á öðrum starfstöðvum fyrirtækisins á Akranesi og í Reykjavík. Frestur til þessa rann út 30. Júní síðastliðinn.

Í dag verður 57 starfsmönnum boðið nýtt starf á öðrum starfsstöðvum HB Granda eða dótturfélögum en enn er óvíst með framtíð 14 starfsmanna  hjá fyrirtækinu.

„Að svo stöddu er ekki hægt að verða við óskum 14 starfsmanna af þeim 92 sem sagt var upp,“ segir í fréttatilkynningu frá HB Granda sem send var út í dag.

„Allir sem tóku fram að Norðurgarður í Reykjavík kæmi til greina sem vinnustaður fá boð um vinnu þar, alls 29 starfsmenn. 28 starfsmenn fá boð um störf á Akranesi, hjá dótturfélögum HB Granda, Norðanfiski og Vigni G. Jónssyni en einnig við sameiginlega þjónustu, þ.e. umsjón tækja, lóða og fasteigna félagsins. 21 starfsmaður hyggst eða hefur þegar farið til annarra vinnuveitanda eða í nám.“

Starfsmennirnir 14 halda vinnunni til 1. september næstkomandi en HB Grandi mun „áfram aðstoða þá eftir megni við atvinnuleit innan félagsins sem utan,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Biðla til HB Granda um að fresta áformum sínum

Bæjarstjórn Akraness samþykkir viljayfirlýsingu um að bæta aðstöðu á hafnarsvæðinu í bænum til að freista þess að fá HB Granda til að halda áfram starfsemi sinni þar.

Neyðarfundur vegna aðgerða HB Granda

Tæplega hundrað starfsmönnum í botnfiskvinnslu HB Granda á Akranesi verður sagt upp og vinnslan færð til Reykjavíkur. Þingmenn kjördæmisins og bæjarstjórn funduðu í gærkvöldi vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×