Skoðun

Ábyrgð á hinu ósýnilega

Þórlindur Kjartansson skrifar
Sá er sagður reginmunur á hundum og köttum að þótt báðar tegundir upplifi á góðum heimilum svipað atlæti þá dragi þær ólíkar ályktanir. Ábyrgir gæludýraeigendur huga alúðlega að dýrum sínum og gæta þess að dýrin hafi húsaskjól, fái nægan mat, mátulegt frelsi og góða hreyfingu. Hundar sem njóta slíks atlætis verða afar hændir að eigendum sínum og fara nánast að líta á þá sem guði. Kettir, sem aldir eru upp við munað og þægindi, ljúflegar strokur og blíðmælgi komast hins vegar að þeirri niðurstöðu—sem er svosem ekkert vitlausari—að það sé ekkert merkilegt við hina þjónustulunduðu eigendur, heldur hljóti þeir sjálfir að vera guðirnir úr því nostrað er svona við þá.

Hálfguðir í bleyjum

Á fyrstu æviárum barna gætir svipaðra tilfinninga. Fyrst um sinn er þakklætið í garð foreldranna ómengað og einlægt. Allt virðist gerast af sjálfu sér; máltíðir birtast á matmálstímum, föt raðast hrein í skúffur og öðru hverju tekst til í herberginu. Smám saman er þó hætt við því að börnin fari að sjá sig sömu augum og kettirnir, enda ekki skrýtið í ljósi þess hversu algengt er að farið sé með þau eins og hálfguði. Það er hlaupið á eftir öllum þeirra dyntum og hugdettum, krúttlegheitin og gáfumerkin eru skilmerkilega auglýst og þau kölluð snillingar þegar þau tileinka sér lágmarksfærni, svo sem eins og að drekka vatn úr glasi eða pissa í kopp.

Eitt af því sem þau byrja þó að velta fyrir sér snemma er hvað gerist þegar sturtað er niður. Hingað til hafa þreyttir foreldrar í höfuðborginni líklega talið sig geta giskað á að allt heila klabbið fari út í sjó; en geta núna sagt með glotti að það sé sent út í fjöru svo allt hrausta útivistarfólkið geti baðað sig í því.

Ósýnilegu kerfin

Það getur verið indælt algleymi að njóta afraksturs og öryggis sem aðrir tryggja. Og það er kannski skýrasta dæmið um hversu háþróað samfélag við byggjum að jafnvel fullorðið fólk þarf að hafa áhyggjur af sífellt færri grunnþörfum. Við treystum á maturinn birtist í hentugum neytendaumbúðum í hillum verslana, að pósturinn læðist inn um lúgurnar, að vatnið flæði af krafti úr krönum, að rafmagn streymi úr innstungum, að ruslið sé tæmt úr tunnum og að skólpið skolist út úr klósettum.

En þótt við njótum þeirra forréttinda að geta tekið ýmsum flóknum hlutum sem sjálfsögðum, þá er það reginskyssa að leyfa sér að halda að þeir gerist sjálfkrafa. Á bak við öll þau kerfi sem við treystum á frá degi til dags liggur mikil vinna og þekking; og stundum viðkvæmt jafnvægi.

Reyndar eru það einmitt þessi stóru, flóknu og ósýnilegu kerfi sem hafa líklega verið helsta ástæða þess að fólk í þéttbýli áttaði sig á því að það þyrfti að velja fólk til þess að bera ábyrgð á ákveðnum sameiginlegum viðfangsefnum. Brunavarnir, ásamt kerfum til þess að farga sorpi og skólpi eru nefnilega þess eðlis að það stoðar lítið fyrir einstaka heimili að hafa sitt á hreinu ef nágrannarnir eru í djúpum skít.

Ábyrgðarhlutverk borgarfulltrúa

Það skal ekki dæmt um það hér hversu alvarlegar bilanirnar í skólpstöð Reykjavíkur voru. Það sem atvikið minnir okkur hins vegar á er að ástæða þess að við kjósum fulltrúa til að fara með sameiginleg mál í bæjum og borgum er einmitt að hafa vökult auga með þeim grundvallarkerfum sem allt okkar daglega líf byggist á.

Það er óhjákvæmilegt að bilanir geti orðið en það er hins vegar óforsvaranlegt að þau yfirvöld sem kjörin eru í höfuðborginni telji sig hafa svo mörgum öðrum hnöppum að hneppa að þau hafi ekki tíma til þess að hafa fullkomna vitneskju um ástand allra þeirra grunnkerfa sem þeim er falin ábyrgð á. Í ljósi þess sem gerst hefur hljóta þeir að endurskoða ögn í hvað þeir verja tíma sínum og orku.

Háþróað samfélag gerir flókna verkaskiptingu mögulega. Sá er hins vegar munur á fullorðnu fólki og ungbörnum að við vitum að þótt hlutir líti út fyrir að gerast sjálfkrafa þá gerum við okkur grein fyrir því að hin ósýnilegu kerfi byggjast á mikilli vinnu og viti. Fyrir þetta borgum við skatta og kjósum fólk til ábyrgðar.

Og það er líka stór munur á okkur og gæludýrunum okkar. Viti borið fólk lætur sér ekki detta í hug að líta á borgarfulltrúa sem kraftaverkafólk eða hálfguði—hvað svo sem þeim kann sjálfum að finnast.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×