Lögreglan hefur fengið mikið af upplýsingum síðan lýst var eftir Louise í dag en Jón Halldór Sigurðsson, lögreglumaður á Suðurnesjum, sagði í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag að verið væri að vinna úr öllum ábendingunum. Enn væri ekkert komið fram í málinu sem hægt væri að festa reiður á.
Jón Halldór að sagði að svo virðist sem Louise hafi komið hingað til lands ein.
„Hún kom til landsins aðfaranótt fimmta, bara með bókað flugfar aðra leið og engin önnur ferðaáætlun sem liggur fyrir.“
Fengu fyrirspurn frá Interpol
Fyrirspurn barst til lögreglunnar hér á landi frá Interpol í París tveimur dögum eftir að Louise kom til Íslands.
„Það eru ættingjar sem eru farnir að lýsa áhyggjum af henni og vita lítið um ferðir hennar og raunar ekki neitt,“ sagði Jón Halldór.
Aðspurður hvort að vitað sé að hún hafi tengsl við einhvern hér á landi sagði Jón Halldór ekkert liggja fyrir um það.
Enn hefur ekki verið farið í það að kalla út björgunarsveitir til að leita að Louise.
„Þetta er tiltölulega umfangsmikið hjá okkur hér á lögreglustöðinni en við höfum ekki brugðið á það ráð að kalla út björgunarsveitir. Við erum núna að safna saman upplýsingum, einhvers staðar hefur hún komið við, og það er bara verið að fara yfir og kanna grundvöll þeirra upplýsinga sem okkur berast í húsið. [...] Annað hvort finnst hún á mjög skömmum tíma, það er ef hún fær fréttir af því að það er verið að leita að henni og ef ekki förum við náttúrulega í massívari leit, kalla út björgunarsveitir og þess háttar,“ sagði Jón Halldór.
Með ljósan lokk í svörtu síðu hári
Louise er fædd árið 1995. Síðast er sást til hennar var hún klædd bláum gallabuxum, brúnum fjallgönguskóm og hvítri peysu. Þá hafði hún meðferðis stóran rauðan bakpoka ásamt upprúllaðri ljósgrárri dýnu.
Jón Halldór bendir svo líka á einn áberandi þátt í útliti Louise en það er ljós lokkur sem hún er með niður eftir síðu dökku hári.
Þeim sem telja sig geta veitt upplýsingar um ferðir Louise er bent á síma lögreglunnar á Suðurnesjum, 444-2200.