„Þetta er risahelgi hjá okkur og sennilega sú stærsta sem við höfum tekið þátt í. Það er mikið undir hjá okkar fólki. Sunna er að keppa sinn þriðja bardaga og væri mikil yfirlýsing hjá henni að vinna fyrstu þrjá atvinnumannabardaga sína," segir Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis.
„Gunni er svo í aðalbardaga kvöldsins og á góðu rönni. Er að mæta manni sem er á enn meira rönni. Þetta verður ekkert meira spennandi en þetta.“
Blandaðar bardagalistir eru orðnar mjög vinsælar á Íslandi og það er ekki síst Gunnari og Sunnu að þakka.
„Sportið er alltaf að verða vinsælla á Íslandi. Það eru 1.600 manns að æfa í Mjölni og Mjölnir er orðinn eitt stærsta íþróttafélagið í Reykjavík. Þetta er allt á réttri leið,“ segir Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis.
Það er mikið undir í bardaganum hjá Gunnari en hverju má fólk búast við af Gunnari?
„Gunnar er alltaf að bæta sig. Bæði í glímunni og standandi. Mesti munurinn núna er samt úthaldið. Hann hefur æft þrekið svakalega og hefur tekið harðar fimm lotur nánast án þess að blása úr nös.“
Íþróttadeild 365 er komin til Glasgow og mun fylgjast ítarlega með öllu í kringum bardaga Gunnars. Fylgstu með á Vísi, Fréttablaðinu og í íþróttafréttum Stöðvar 2. Bardagi Gunnars verður í beinni á Stöð 2 Sport. Hægt er að kaupa áskrift á 365.is.