Innlent

Erlendir skátar í háskaleik tengjast ekki alþjóðlegu skátamóti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skátar í skrúðgöngu.
Skátar í skrúðgöngu. vísir/daníel
Bandalag íslenskra skáta segir hópa erlendra skáta, sem léku háskaleik í Skaftá og Reynisfjöru í gær, ekki tengjast alþjóðlegu móti fyrir unga skáta sem haldið verður hér á landi í lok þessa mánaðar. Bandalagið hefur sent öllum þátttökulöndum mótsins bréf þar sem undirstrikað er að þátttakendur beri virðingu fyrir íslenskri náttúru.

Erlendir skátar fóru mikinn á landinu í gær en hópur franskra skáta var hætt kominn í Skaftá í gærkvöldi og annar hópur erlendra skáta lék háskaleik í Reynisfjöru síðdegis. Í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta segir að skátarnir, sem ákváðu að vaða Skaftá, hafi verið varaðir við af landvörðum Vatnajökulsþjóðgarðs í Laka en virt þá viðvörun að vettugi.

Franskur skáti í sjálfheldu á hólma í Skaftá í gær. Þyrla gæslunnar var kölluð á vettvang til að bjarga honum.Landsbjörg
Eru ekki þátttakendur á mótinu

„Það er mikil mildi að ekki skyldi fara verr,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta um málið. Búið er að hafa samband við Bandalag franskra skáta og láta vita af atburðinum.

Þá segir í tilkynningunni að skátarnir sem lentu í hremmingunum í gær tengist ekki mótinu, World Scout Moot, og séu ekki skráðir þátttakendur þar

„Hins vegar undirstriki þessir atburðir mikilvægi þess að það verði brýnt fyrir ungu mótsgestunum, sem eru frá 106 löndum, að þeir virði íslenska náttúru og þær hættur sem henni fylgja. Bandalag íslenskra skáta hefur sent öllum þátttökulöndum bréf til þess að undirstrika þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×