Innlent

Sýnir að íslensku fornsögurnar eiga erindi við heiminn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ákvörðun um að setja landnám Eiríks rauða á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sýnir að íslenskar fornbókmenntir eiga erindi við allan heiminn, segir Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, í viðtali í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan.

Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, tilkynnti um helgina að kjarni hinnar fornu norrænu Eystribyggðar á Grænlandi væri kominn á hinn eftirsótta lista yfir heimsminjar, þar á meðal Brattahlíð Eiríks rauða, biskupssetrið að Görðum, Vatnahverfið og Hvalseyjarfjarðarkirkja.

Séð yfir staðinn sem talinn er hafa verið Brattahlíð Eiríks rauða. Styttan er af Leifi heppna Eiríkssyni horfandi til Ameríku.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
„Við gleðjumst alltaf þegar eitthvað sem okkur við kemur fær athygli umheimsins,” segir Gísli og minnir á að Þingvellir hafi fengið samskonar viðurkenningu. Handrit Árnastofnunar væru einnig á minjaskrá heimsins og sömuleiðis minjarnar um ferðir norrænna manna til L’anse aux Meadows á Nýfundnalandi í kringum árið 1000. 

-En hvað segir heimslisti UNESCO um íslenskar fornbókmenntir þegar helstu heimildir um þessa atburði eru Íslendingasögur og Landnámabók? 

Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun.Stöð 2/Einar Árnason.
„Að þær eiga erindi, - eins og við erum alltaf að hamra á, - við allan heiminn. Þetta er ekki bara sérviska hér í nokkrum fræðimönnum á Íslandi heldur eru þetta minningar og listrænt form, sem þær eru spenntar í, sem eru að gæðum á borð við það besta sem skapað hefur verið í bókmenntum heimsins.” 

Gísli telur engan vafa leika á að norræna samfélagið á Grænlandi byggðist upp af fólki sem kom aðallega frá vestanverðu Íslandi. 

„Við þurfum ekkert að vera feimin við að líta á þetta sem hluta af íslensku miðaldasamfélagi, byggðina á Grænlandi. En svo fer hún sína leið, eins og öll samfélög gera.” 

Rústir Hvalseyjarfjarðarkirkju. Síðustu heimildir um norrænu byggðina eru af brúðkaupi í þessari kirkju árið 1408. Síðan hefur ekkert spurst til þjóðarinnar.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Um dularfullt hvarf norrrænu byggðarinnar vitnar Gísli í skrif sonar Hans Egede, Poul Egede, sem leitaði heimilda meðal Inúíta á Grænlandi. Hann hafi skráð í dagbók sína um miðja átjándu öld frásagnir um að norræna fólkið hafi farið um borð í útlend skip, sem komu nokkur ár í röð, - sem hafi smalað því saman og siglt með það. 

„Getgátur eru um að jafnvel einhverjir hafi lent í sólarlandaferð til Kanarí eða jafnvel haldið áfram til Nýfundnalands, vegna þess að þá var farið að byggja Norður-Ameríku.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×