Innlent

Túrtappar, bleiur og eyrnapinnar í tonnavís látið gossa í klósettin

Jakob Bjarnar skrifar
Ef skoðaðar eru tölur um magn rusls sem höfuðborgarbúar láta góssa í klósett sín er erfitt að líta hjá þeirri staðreynd að þeir séu upp til hópa sóðar.
Ef skoðaðar eru tölur um magn rusls sem höfuðborgarbúar láta góssa í klósett sín er erfitt að líta hjá þeirri staðreynd að þeir séu upp til hópa sóðar. Gettys
Höfuðborgarbúar henda hundruðum tonna af rusli í klósettin sín. Þetta kemur fram í svari Ólafar Snæhólm Baldursdóttur upplýsingafulltrúa Veitna við fyrirspurn Vísis. Í fyrra voru 130 tonn sem komu frá hreinsistöðvunum í Ánanaustum og Klettagörðum urðuð.

Fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um bilun í hreinsibúnaði dælustöðvar í Faxaskjóli. Í fréttum RUV í gær, sem hefur látið bilunina mjög til sín taka, kom fram að í kjölfar þeirrar bilunar hefur magn af túrtöppum, bleium og eyrnapinnum í fjörum landsins aukist. Skal engan undra.

Á undanförnum tveimur árum og það sem af er ársins 2017 hafa verið síuð rúmlega 153 tonn af af rusli í hreinsistöðinni í Ánanaustum og 164 tonn skiluðu sér í hreinsistöðinni í Klettagörðum.

Þetta eru magntölur þess sem síað er úr skólpi í hreinsistöðvunum í Ánanaustum og Klettagörðum. Í þær fer allt skolp úr Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Garðabæ. Höfuðborgarbúar verða því að teljast nokkuð hirðulausir um umhverfi sitt, í ljósi þessa. Í þessum tölum er eingöngu um að ræða rusl en annað, svo sem fita og sandur, er tekinn frá skolpi á öðrum stað í ferlinu.

Um er að ræða tölur tveggja síðustu ára til dagsins í dag en lengra nær samanburður ekki þar sem fráveituúrgangur dróst mikið saman í kjölfar þess að búnaður til að þvo ristarúrgang og sand í hreinsistöðvum að Klettagörðum og Ánanaustum var settur upp í byrjun árs 2015.

Í fyrra skrifaði Fjóla Jóhannesdóttir fagstjóri fráveitu Veitna athyglisverða grein, sem virðist hafa farið fram hjá flestum ef litið er til alls ruslsins sem látið er fara í klósettin. Þar segir meðal annars:

„Á hverjum degi fer gríðarlegt magn af rusli í hreinsistöðvar en áhrif af blautþurrkum í kerfinu okkar hefur farið vaxandi undanfarin ár. Vinna og kostnaður felst í því að hreinsa dælur og farga ruslinu. Allt viðhald eykst og dýr búnaður kerfanna skemmist fyrr en ella. Með því að minnka magn óæskilegra hluta/efna sem við sendum í fráveituna getum við lækkað kostnað og minnkað umhverfisáhrif töluvert. Gleymið ekki að allt það sem fer í klósettin endar í fráveitukerfinu sem eingöngu er ætlað fyrir líkamlegan úrgang og salernispappír.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×