Innlent

Vivaldi rokkaður í Skálholtskirkju

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti.
Guðrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti. Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Sumartónleikarnir í Skálholti standa nú sem hæst en þeir eru orðnir ein virtasta tónlistarhátíð Norðurlandanna á sviði barokktónlistar og kirkjan þykir einstaklega hljómfögur. Þrennir tónleikar verða um helgina.

Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá æfingu í Skálholti í dag þar sem heyra mátti hljóðfæraleik meðlima sænsku barokksveitarinnar Camerata Öresund og söng Hildigunnar Einarsdóttur. Sumartónleikarnir í Skálholti eiga sér yfir fjörutíu ára sögu.

„Þetta er ein elsta hátíð á Norðurlöndum þar sem verið er að leggja áherslu á hljóðfæraleik á upprunahljóðfæri, söguleg hljóðfæri, og fyrir það er hún þekkt langt út fyrir landsteinana,“ segir Guðrún Birgisdóttir, flautuleikari og framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti.

Barokksveitin Camerata Öresund á æfingu í Skálholtsdómkirkju í dag.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Kirkjunnar menn eru stoltir af því að leggja Skálholtsdómkirkju undir tónleika. 

„Hljómburðurinn í dómkirkjunni er afbragðsgóður. Þetta er eitthvert besta tónlistarhús landsins,“ segir Halldór Reynisson, starfandi Skálholtsrektor.

Undir það tekur tónlistarfólkið, sem sækist eftir því að fá að taka þátt í hátíðinni. 

„Hún er ákaflega hljómfögur fyrir þessa tónlist,“ segir Guðrún. 

Halldór Reynisson, starfandi Skálholtsrektor.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Hátíðin í ár hófst þann 8. júlí, stendur í fimm vikur, og á þessum tíma geta gestir valið um nærri þrjátíu tónleika, meðal annars heyrt þetta nú um helgina: 

„Hittara allra tíma, Árstíðir eftir Vivaldi. Og þeir spila eins og svakalegir stuðboltar þannig að það er alveg á við hvaða rokktónleika sem er,“ segir Guðrún og hlær. 

Tónlistarhátíðinni lýkur um verslunarmannahelgina með minningartónleikum um stofnandann, Helgu Ingólfsdóttur. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Sumartónleika í Skálholti

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 úr Skálholti í dag:

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×