Bíó og sjónvarp

Game of Thrones: Er erfitt að drepa dreka?

Samúel Karl Ólason skrifar
Drogon í hringleikahúsinu í Mereen.
Drogon í hringleikahúsinu í Mereen. Vísir/HBO
Spennuspillir!



Þið þekkið þetta. Ekki lesa ef þið eruð ekki að horfa á Game of Thrones.



Farið varlega!

via GIPHY

„Hún á þrjá fullvaxna dreka, yðar hátign. Eins og Aegon, þegar hann sigraði konungsríkin sjö. Hvernig ætlið yður að stöðva þá?“ Eðlileg spurning frá Randyll Tarly í síðasta þætti Game of Thrones. Drottningin Cersei Lannister hafði þá biðlað til fjölda lávarða um að berjast með sér gegn Deanerys Targaryen og Tarly (og án efa fleiri) virtist efast um getu þeirra til þess að drepa dreka hennar.

Hinn sífellt krípí Qyburn tilkynnti föður Samwell Tarly að unnið væri að lausn á því vandamáli.

„Úúúú. Hvað ætli það sé?“ Ímynda ég mér að margir hafi hugsað.

Skömmu seinna í þættinum birtist svarið. Töfralausn Qyburn var stór lásbogi og internetið hæddist að honum. Einhverjum fannst þetta heldur óspennandi lausn á stóru vandamáli og dregið væri í efa að hægt væri að drepa Drogon, Rhaegal og Viserion með þessum hætti.

Qyburn vísaði til þess þegar Drogon lenti í hringleikahúsinu í Mereen og kom Daenerys og félögum til bjargar frá Sons of The Harpy. Þá var Drogon verulega særður með spjótum. Orð Qyburn: „Ef það er hægt að særa þá, þá er hægt að drepa þá“ Vekja upp ákveðna spurningu. Er yfir höfuð hægt að drepa dreka í söguheimi Game of Thrones og hve erfitt er það?

Svörin við þeim spurningum eru: Já og tiltölulega.

Útdauðir í 150 ár

Þegar Daenerys brenndi sig, Khal Drogo og nornina Mirri Maz Duur í fyrstu þáttaröð og egg hennar klekktust út höfðu drekar verið útdauðir í 150 ár. Illyrio Mopatis, sem gaf henni eggin, sem voru steinrunnin, sagði þau hafa komið frá Skuggalöndunum sem eru mjög langt í austri frá Westeros. Uppruni dreka er rakinn til þess svæðis. Það þykir líklegasta kenningin um uppruna dreka en þær eru fleiri og drekabein eru sögð hafa fundist um nánast allan heim.

Sögur hafa lengi sagt til um að drekar hafi komið frá öðru tungli sem sprakk. Þúsundum ára áður en A Song of Ice and Fire bækurnar og Game of Thrones þættirnir hefjast lærðu íbúar Valyria að temja og ríða drekum og ein kenningin segir til um að þeir hafi í raun skapað drekana með blóðgöldrum. Drekar hafa lengi verið tengdir við galdra og það hefur verið gefið í skyn að galdrar hafi aftur orðið mögulegir eftir að drekar Daenerys skriðu út úr eggjum sínum.

Með því að temja dreka og nota þá í stríði tókst stærstu ættum Valyria að leggja undir sig nánast helming hins þekkta heims. Drekar voru sérstaklega tengdir þeim sem riðu þeim og mátti enginn annar fara á bak þeirra.

Á endanum sprakk Valyria þó í loft upp og einu drekarnir sem taldir eru hafa lifað það af voru þrír drekar í eigu Targaryen fjölskyldunnar sem hafði flúið frá Valyria til Dragonstone fyrir Dómsdag Valyria.

Þegar mest var átti Targaryen fjölskyldan um tuttugu dreka. Þeir voru þó hættir að stækka og voru orðnir eitthvað skrítnir. Á endanum urðu þeir útdauðir.

Einn af drekum Aegon drepinn með lásboga

Með einungis þremur drekum tókst Aegon og systrum/eiginkonum hans að leggja undir sig stóran hluta Westeros. Allt nema Dorne í rauninni.

Rhaenys Targaryen reið  drekanum Meraxes í orrustu, en hann var einmitt drepinn í fyrsta Dorne-stríðinu. Nánar tiltekið við kastalann Hellholt. Það sem drap Meraxes og í senn Rhaenys var einmitt píla úr tiltölulega stórum lásboga, eða Scorpio. Meraxes var skotinn á flugi yfir kastalanum og hrapaði til jarðar. Við það dó Rhaenys einnig.

Það sem gerði þó útaf við dreka Targaryen ættarinnar, sem voru þeir síðustu í heiminum, var borgarastyrjöld konungsættarinnar sem hófst um 130 árum eftir sigurför Aegon um Westeros. Fjölskyldan var orðin nokkuð stór og þegar konungurinn Viserys I Targaryen dó fóru þau Rhaenyra og Aegon II the Elder að berjast um hásætið beitta. Stríðið sem fylgdi er kallað Drekadansinn (Dance of Dragons) þar sem meðlimir Targaryen fjölskyldunnar börðust gegn hvorum öðrum á drekum sínum.

í því stríði dóu drekarnir hver á fætur öðrum.

Fimm drekar drepnir af æstum múgi

Drekinn Arrax var drepinn af drekanum Vhagar nærri Storms End, en Vhagar var mun stærri. Höfuð og háls Arrax rak á land við Storms End um þremur dögum eftir orrustuna. Lucerys Velaryon hafði verið á baki Arrax og rak lík hans einnig á land á sama stað.

Í orrustunni við Rooks Nest dó drekinn Meleys, þegar Sunfyre og Vhagar réðust á hann. Sunfyre særðist illa og missti annan vænginn í orrustunni, en vængurinn gréri þó aftur. Drekinn Stormcloud dó eftir að hann hafði verið skotinn margsinnis með bogum og hafði fengið eina pílu úr Scorpio í gegnum hálsinn.

Á meðan borgarastyrjöldin stóð yfir kom til óeirða í Kings Landing og leiddi óður spámaður, sem kallaður var Sheperd, æstan múg að The Dragonpit, sem er nærri borginni og þar sem drekar voru geymdir. Múgurinn drap þar heila fimm dreka. Það voru í raun bara reiðir bændur og nokkrir riddarar sem gerðu það, þó fjölmargir þeirra hafi dáið í átökunum. Drekarnir fimm hétu Shrykos, Morghul, Tyraxes, Dreamfyre og Syrax.

Einfaldasta og besta lausnin

Það er mögulegt að drepa dreka með boga, ef bogamaðurinn er heppinn, en Scorpio er líklegra til árangurs en bogi. Lausn Qyburn er í raun sú einfaldasta og sú besta og ég óttast verulega að drekar Daenerys séu í hættu. Þrátt fyrir kynngimagnaðan kraft dreka, eru þeir bara dýr og ef það er hægt að særa þá, þá er hægt að drepa þá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.