Innlent

Nýr framkvæmdastjóri Sólheima hitti íbúana í gær

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Auður Finnbogadóttir nýr framkvæmdastjóri Sólheima, situr í stjórn Íslandsbanka.
Auður Finnbogadóttir nýr framkvæmdastjóri Sólheima, situr í stjórn Íslandsbanka. Mynd/Lund
Auður Finnbogadóttir hefur tekið við sem nýr framkvæmdastjóri Sólheima ses. Hún er ráðin tímabundið til tæps árs. Starfsfólk og íbúar Sólheima hittu Auði í gær.

Guðmundur Ármann Pétursson lét af störfum fyrr í mánuðinum. Rekstur Sólheima hefur legið undir ámæli á árinu. Réttindagæslumenn fatlaðra hafa gagnrýnt harðlega aðbúnað íbúa sem snertir réttindi og lífsgæði þeirra á Sólheimum í Grímsnesi. Þá hafa íbúar sjálfir stigið fram og lýst slökum aðbúnaði og aðstæðum á Sólheimum í viðtölum við Fréttablaðið á árinu.

„Ég get auðvitað ekki tjáð mig um einstök atriði hvað þetta varðar. Það eru auðvitað alltaf atriði til endurskoðunar sem tengjast starfinu. Það eru líka alltaf í gildi samningar við sveitarfélög sem eru ráðandi í starfinu,“ segir Auður sem mun koma að stefnumótandi verkefnum með framkvæmdastjórn auk þess að stýra almennum rekstri á Sólheimum.

Auður er afar reynslumikill stjórnandi og með víðtæka reynslu. Hún situr í stjórn Íslandsbanka og hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri Lífsverks lífeyrissjóðs, Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar og MP banka hf. Hún hefur einnig gegnt stöðu stjórnarformanns Samkeppniseftirlitsins og setið í stjórn Framtakssjóðs Íslands, Icelandair Group hf., Landsnets, Norðlenska og Nýja Kaupþings banka hf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×