Erlent

ESB ósátt við einleik Bandaríkjanna í refsiaðgerðum gegn Rússum

Kjartan Kjartansson skrifar
Jean-Claude Juncker gagnrýnir Bandaríkin vegna frumvarps um að herða refsiaðgerðir gegn Rússum.
Jean-Claude Juncker gagnrýnir Bandaríkin vegna frumvarps um að herða refsiaðgerðir gegn Rússum. Vísir/AFP
Evrópusambandið gæti gripið til ráðstafana til að vinna gegn hertum refsiaðgerðum gegn Rússlandi sem bandarískir þingmenn samþykktu í gær. Forsvarsmenn sambandsins eru ósáttir við að með þeim sé vestræn samstaða rofin og orkuöryggis aðildarríkjanna ógnað.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti að herða refsiaðgerðir gegn Rússum vegna innlimunar Krímskaga og afskipta af bandarísku forsetakosningunum í gær.

„Bandaríska frumvarpið gæti haft ófyrirséð áhrif sá orkuöryggis Evrópusambandsins,“ sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í yfirlýsingu í dag.

Sjá einnig:Rússar óánægðir með hertar refsiaðgerðir

Taki Bandaríkin ekki tillit til athugasemda sambandsins muni það grípa til aðgerða á næstu dögum. Óttast evrópskir ráðamenn að refsiaðgerðirnar ógni olíu- og gasviðskiptum við Rússa sem Evrópulönd reiða sig á, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„„Bandaríkin fyrst“ getur ekki þýtt að hagsmunir Evrópu séu í síðasta sæti,“ sagði Juncker og vísaði til slagorðs Donalds Trump forseta.

Gætu reynt að fá undanþágu fyrir evrópsk orkufyrirtæki

Trump er raunar sagður andsnúinn hertum refsiaðgerðum en hann hefur viljað lappa upp á samskiptin við rússnesk stjórnvöld.

Það hefur þó reynst viðkvæmt í ljósi þess að bandaríska leyniþjónustan telur Rússa hafa beitt sér í forsetakosningunum í fyrra til að tryggja Trump sigur, meðal annars með því að brjótast inn í tölvukerfi Demókrataflokksins og leka upplýsingum þaðan.

Embættismenn ESB segja að þeir gætu reynt að koma í veg fyrir að refsiaðgerðum verði beitt eða þrýst á bandarísk stjórnvöld um að evrópsk orkufyrirtæki verði undanþegin þeim. Þeir gætu einnig lagt fram kvörtun við Alþjóðaviðskiptastofnunina.

Öldungadeild Bandaríkjaþings á enn eftir að samþykkja frumvarpið og óvíst er hvort að Trump muni beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að hertar refsiaðgerðir verði að lögum.

Samkvæmt einu ákvæða laganna þyrfti Trump leyfi frá þinginu til að aflétta refsiaðgerðunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×