Innlent

Sundlaugarvörður á Sauðárkróki grunaður um að hafa tekið ljósmyndir í kvennaklefanum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn starfaði í sundlauginni á Sauðárkróki.
Maðurinn starfaði í sundlauginni á Sauðárkróki. vísir/gva
Maður sem starfaði sem sundlaugarvörður í sundlauginni á Sauðárkróki sætir nú rannsókn lögreglu vegna gruns um að hann hafi tekið ljósmyndir af sundlaugargestum í kvennaklefa laugarinnar.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, staðfestir þetta í samtali við Vísi en fyrst var greint frá málinu á vef DV.

Stefán segir málið hafa komið inn á borð lögreglu í liðinni viku. Það liggi því ekki fyrir hversu umfangsmikið það er eða hversu lengi meint brot mannsins eiga að hafa staðið yfir en á meðal þess sem lögreglan mun rannska eru tölvur og símar. Að öðru leyti kveðst hann ekki geta tjáð sig vegna rannsóknarhagsmuna.

Þorvaldur Gröndal, umsjónarmaður íþróttamannvirkja í Skagafirði, tilkynnti um brot mannsins. Hann segir í samtali við Vísi að manninum hafi verið vikið úr starfi. Sú uppsögn sé ótímabundin.

Að því er fram kemur á vef DV gætu meint brot mannsins hafa staðið yfir í ár og brotaþolar gætu þá verið tugir talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×