Lífið

Ráðleggingar Wöndu eru sér á báti

Guðný Hrönn skrifar
Wanda Star er þekkt fyrir umdeildar skoðanir sínar og ráðleggingar til túrista á Íslandi.
Wanda Star er þekkt fyrir umdeildar skoðanir sínar og ráðleggingar til túrista á Íslandi. vísir/andri marinó
Dragdrottningin hispurslausa Wanda Star vinnur við að aðstoða túrista á Íslandi en þær leiðbeiningar sem hún gefur eru oftar en ekki umdeildar enda er hún ekkert að skafa af hlutunum.

Hinn breski Richard Chapman hefur búið á Íslandi í þrjú ár og starfar nú við það að leiðbeina ferðamönnum sem koma til landsins. Hann kemur líka reglulega fram í dragi sem hin hispurslausa Wanda Star og fjallar um Ísland.

Richard starfar hjá Guide to Iceland og hans hlutverk er að setja saman hjálplega texta fyrir túrista sem koma hingað til lands. Richard skrifar bæði sem hann sjálfur, Richard Chapman, en líka sem hin hreinskilna Wanda Star sem er afar ólík Richard.

„Hlutverk mitt er aðallega að selja Ísland og leiðbeina ferðamönnum. En Wanda er aðallega að vara fólk við Íslandi og gera góðlátlegt grín að landi og þjóð. Hennar pistlar eru umdeildir og skapa alltaf smá umtal,“ segir Richard sem kemur reglulega fram sem Wanda með hópnum Drag-Súgur.

Við fengum Wöndu til að setja saman leiðbeiningar um hvað á og á ekki að gera á Íslandi.

„Fossar eru leiðinlegir, tröll eru ógeðsleg og jafnrétti kynjanna og umhverfisvernd er orðið þreytt,“ útskýrir Wanda sem segir hefðbundin meðmæli sem túristar fá hér á landi ekki höfða til allra. Hún tekur því málin í sínar hendur og skaffar hér „alvöru“ ráð.



Wanda mælir með að túristar á Íslandi...

1. tali við Íslending

Það lætur þér líða eins og mjög veraldarvönum einstaklingi: að tala við einhvern sem getur talið húðlitina sem hann eða hún hefur séð á fingrum annarrar handar.

2. leggi sitt af mörkum í náttúrunni

Íslenska náttúran er leiðinleg og grá. Lífgaðu upp á hana með rauðum kókflöskum og appelsínugulum sígarettustubbum.

3. noti Internetið

Á Íslandi eru jöklar, fossar, svartar strendur, hraun og eldfjöll og þú getur skoðað myndir af öllu þessu á netinu með ókeypis Wifi-i sem þú finnur á flugvellinum.

4. fari á söfn

En það er svo lítið um menningu á Íslandi að þau hleypa mér upp á svið.

5. njóti djammmenningarinnar

Þetta er ekki merkilegt, en í það minnsta einhver menning.

Wanda mælir EKKI með að túristar á Íslandi...

1. komi til Íslands

Þetta eru fyrstu mistök sem allir túrista á Íslandi gera.

2. treysti konum

Íslenskar konur hafa náð fram miklu jafnrétti, svona mikið jafnrétti kynja þekkist ekki annars staðar í heiminum. Passið ykkur.

3. drekki kranavatnið

Það er ekkert flúor, blý eða kvikasilfur í vatninu á Íslandi. Þetta þýðir að þú færð ekki vítamínin þín. Eina sem þú ættir að drekka á Íslandi er innfluttur flöskubjór.

4. lesi viðvörunarskilti

Fáðu þér sundsprett í Reynisfjöru eða Jökulsárlóni. Þú sjálfur/sjálf þekkir þín mörk best.

5. kaupi íslenska lopapeysu

Bíddu í staðinn eftir grænlenskum ísbirni á Vestfjörðum, þar færðu alvöru pels. Svo getur þú líka alltaf nælt þér í selskinnspels í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.



„Hér hafið þið það. Sannleikurinn um hvað skal og skal ekki gera á Íslandi. Ég meina þetta,“ segir Wanda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×