Sport

Fullyrt að Rússar fái að keppa á næstu Vetrarólympíuleikum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thomas Bach er forseti IOC.
Thomas Bach er forseti IOC. Vísir/Getty
Fréttastofa Press Association fullyrðir að Rússum verði ekki meinuð þátttaka á Vetrarólympíuleikunum í PyeongChang í Suður-Kóreu sem fara fram í febrúar. Þeir verði hins vegar beittir þungum sektum vegna þeirra fjölda lyfjamisnotkunarmála sem þar hafa komið upp.

Lyfjamisnotkun Rússa kom fram á sjónarsviðið í aðdraganda Ólympíuleikanna í Ríó í fyrra en Alþjóðafrjálsíþróttasambandið ákvað að meina öllum rússnesku frjálsíþróttafólki þátttöku á leikunum.

Málið er nú í höndum tveggja sjálfstæðra nefnda sem voru skipaðar af Thomas Bach, forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar. Talið er líklegt að niðurstaða þeirra verði að Rússar fái þunga sekt en megi keppa á leikunum í Suður-Kóreu.

Fullyrt er í fréttinni að forráðamenn sambandsins og rússnesku ólympíunefndarinnar hafi komist að samkomulagi um þetta og að afsökunarbeiðni sé tilbúin.

Síðustu Vetrarólympíuleikar fóru fram í Rússlandi en Rússar fengu þá flest gullverðlaun á bæði leikunum sjálfum sem og Ólympíumóti fatlaðra það árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×