Erlent

Sameinuðu þjóðirnar gagnrýna yfirvöld Venesúela harðlega

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Talið er að öryggissveitir og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi staðið að því að 73 mótmælendur hafa látið lífið síðan apríl á þessu ári.
Talið er að öryggissveitir og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi staðið að því að 73 mótmælendur hafa látið lífið síðan apríl á þessu ári. Vísir/afp
Sameinuðu þjóðirnar gagnrýndu yfirvöld Venesúela í dag fyrir að hafa beitt mótmælendur hörku og ofbeldi. Þá eru þau sökuð um mannréttindabrot. Þetta kemur fram í undanfara skýrslu sem gefin verður formlega út í lok þessa mánaðar. Mótmælendur í Venesúela hafa risið upp gegn ríkisstjórn landsins og forseta Nicolas Maduro. Talið er að öryggissveitir og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi staðið að því að 73 mótmælendur hafa látið lífið síðan apríl á þessu ári. Reuters greinir frá.

„Ábyrgðin á mannréttindabrotunum liggur í efstu þrepum ríkisstjórnarinnar,“ sagði Zeid Ra'ad al-Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Yfirvöld hafa ekki sent frá sér neina yfirlýsingu vegna málsins en ríkisstjórnin hefur ítrekað hunsað gagnrýnisraddir og halda áfram að berjast gegn áhrifum mótmælenda.  

Þá hefur hæstiréttur landsins, sem styður ríkisstjórnina, dæmt Ramon Muchacho, bæjarstjóra úr röðum stjórnarandstöðunnar í 15 mánaða fangelsi. Var hann sagður hafa neitað að sporna við mótmælum í kjördæmi sínu Chacao sem er innan marka höfuðborgarinnar Caracas.

Tilskipunin um að fangelsa Muchacho kom í kjölfar þess að nýtt stjórnlagaþing var kosið í síðustu viku sem styður forseta landsins og Sósíalistaflokk hans. Maduro hefur gefið það út að nýja stjórnlagaþingið muni hjálpa til við að koma á friði í landinu. Stjórnarandstaðan heldur því hins vegar fram að þingið styðji frekar við einræðistilburði forsetans.

Á laugardaginn ákvað þingið að losa sig við Luisu Ortega, ríkissaksóknara og sökuðu hana um að vera í andstöðu við ríkisstjórnina sem og að hafa, líkt og Muchacho, neitað að hafa stjórn á mótmælunum. Þá hefur hæstiréttur landsins einnig gefið út lögbann á um það bil 12 bæjarstjóra og krefst þess að þeir komi í veg fyrir aðgerðir mótmælenda.

„Okkur er refsað fyrir að vinna vinnuna okkar, fyrir að styðja við rétt fólks til að halda friðsamleg mótmæli og fyrir að styðja við rétt allra í Venesúela til að nýta sér rétt sinn. Næstkomandi klukkustundir verða mér erfiðar,“ sagði Muchacho í tölvupósti til stuðningsaðila sinna.


Tengdar fréttir

Stjórnarandstöðuleiðtogar í Venesúela handteknir

Tveir áberandi leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Venesúela voru teknir höndum á heimilum sínum um miðja nótt. Andstæðingar Nicolasar Maduro forseta saka hann um einræðistilburði.

Lætur rannsaka meint kosningasvik í Venesúela

Luisa Ortega, ríkissaksóknari Venesúela, hefur fyrirskipað rannsókn á ásökunum um kosningasvindl í stjórnlagaráðskosningum sunnudagsins. Ortega, sem er opinskár gagnrýnandi forsetans Nicolas Maduro, tilkynnti um þetta í gær og kallar hún eftir hlutlausri rannsókn.

Bandaríkin leggja refsiaðgerðir á forseta Venesúela

Bandarísk fyrirtæki og einstaklingar mega ekki eiga nein viðskipti við Nicolas Maduro, forseta Venesúela, samkvæmt refsiaðgerðum sem Hvíta húsið tilkynnti um í dag. Aðgerðirnar eru viðbragð við atkvæðagreiðslu sem fór fram í Venesúela um helgina sem er talin tilraun Maduro til að sölsa undir sig frekari völd.

ESB viðurkennir ekki kosningarnar í Venesúela

Alþjóðlegur þrýstingur á ríkisstjórn Venesúela eykst. ESB viðurkennir ekki umdeildar kosningar þar en beitir hana þó ekki refsiaðgerðum líkt og Bandaríkjamenn hafa þegar tilkynnt um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×