Erlent

Lætur rannsaka meint kosningasvik í Venesúela

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Luisa Ortega, ríkissaksóknari Vene­súela, er óhress með kosningar sunnudagsins.
Luisa Ortega, ríkissaksóknari Vene­súela, er óhress með kosningar sunnudagsins. Nordicphotos/AFP
Luisa Ortega, ríkissaksóknari Venesúela, hefur fyrirskipað rannsókn á ásökunum um kosningasvindl í stjórnlagaráðskosningum sunnudagsins. Ortega, sem er opinskár gagnrýnandi forsetans Nicolas Maduro, tilkynnti um þetta í gær og kallar hún eftir hlutlausri rannsókn.

Sama dag greindu forsvarsmenn breska fyrirtækisins Smartmatic, sem sáu Venesúelamönnum fyrir kosningakerfinu, frá því að yfirvöld hefðu stórlega ýkt kjörsókn á sunnudag. Munurinn á kjörsóknartölum fyrirtækisins og yfirvalda væri að minnsta kosti milljón kjósendur og því gæti fyrirtækið ekki ábyrgst að úrslit kosninganna væru rétt.

Þessum fullyrðingum hefur Maduro þó hafnað. Samkvæmt yfirvöldum kusu um átta milljónir, sem þýðir 42 prósenta kjörsókn. Gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar telja þó að kjörsókn hafi verið mun lægri, allt niður í tvær milljónir.

Ríkissaksóknarinn greindi frá því í gær að hún hefði skipað tvo saksóknara til að rannsaka fjóra af fimm yfirmönnum kosningastjórnar í landinu „fyrir þetta reginhneyksli sem gæti orðið kveikjan að enn meira ofbeldi í ríkinu en við höfum séð til þessa“. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að boða til kosninga var afar umdeild. Maduro vill að nýtt stjórnlagaráð semji stjórnarskrá sem á að koma í stað stjórnarskrárinnar sem samin var árið 1999 í forsetatíð læriföður Maduro, Hugo Chavez.

Samkvæmt könnun Dataanalisis frá því nítjánda júlí voru 72,7 prósent aðspurðra ósammála ákvörðun Maduro um að boða til kosninga. Álíka niðurstöður birtust í könnunum Hercon, Pronóstico, Meganalisis, Ceca, UCV, Datincorp og MORE Consulting. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×