Fótbolti

Vincent Kompany á leið til landsins: Íslenska liðið frábært, virkilega einstakt

Atli Ísleifsson skrifar
Vincent Kompany var keyptur til Manchester City frá Hamburger SV árið 2008.
Vincent Kompany var keyptur til Manchester City frá Hamburger SV árið 2008. Vísir/Getty
Belginn Vincent Kompany, fyrirliði stórliðs Manchester City, segist hlakka mikið til leik Manchester City og West Ham sem fram fer á Laugardalsvelli á föstudaginn. Þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur til Íslands og segir hann það miður að ekki fá tækifæri til að skoða sig mikið um.

Kompany segir í samtali við Vísi að leikmenn Manchester City komi til Íslands á morgun. Komi liðið frá Bandaríkjunum þar sem það hefur spilað leiki við Manchester United, Real Madrid og Tottenham á síðustu dögum. „Við komum á morgun, spilum leikinn á föstudag og svo förum við strax eftir leikinn. Því miður verður þetta því ekki langur tími sem við höfum á Íslandi,“ segir Kompany.

Hann segir þetta verða í fyrsta sinn sem hann komi til landsins. „Ég hlakka mikið til. Ég hef ferðast víða en með árunum hef ekki haft mörg tækifæri til að ferðast til nýrra landa. En þetta er nýr staður fyrir mig.“

Kannski færðu einhvern tímann tækifæri til að spila alvöru keppnisleik á Íslandi ef íslensku liði tækist að komast í riðlakeppni einhverrar stóru Evrópudeildanna. Við bíðum enn eftir því.

„Það er ekkert útilokað. Allt er mögulegt eftir EM síðasta sumar,“ segir Kompany glaður í bragði.

Missti af EM vegna meiðsla

Kompany glímdi við meiðsli síðasta sumar og gat því ekki spilað með belgíska landsliðinu í lokakeppni EM í Frakklandi. „Ég var að vinna í sjónvarpi í kringum EM – á BBC og ESPN – og fylgdist vel með íslenska liðinu. Það var frábært, virkilega einstakt. Allir voru jákvæðir vegna góðrar frammistöðu íslenska liðsins. Ég var það líka.“

Hann segist þó ekki hafa haft gaman af því þegar íslenska liðið sló út það enska í sextán liða úrslitum mótsins. „Ég vinn jú í Englandi og eiginkona mín er ensk. En ég kunni að meta afrekið og hve einstakur viðburður þetta var í sögu fótboltans.“

Vincent Kompany hefur spilað 71 leik fyrir landslið Belga.Vísir/Getty

Mikilvægur leikur fyrir margra hluta sakir

Leikur Manchester City og West Ham er síðasti leikur City áður en enska úrvalsdeildin hefst. „Fyrir margra hluta sakir er um mikilvægan leik að ræða. Þetta er tækifæri fyrir okkur til að sýna að við séum í góðu standi. Svo markar leikurinn endalok undirbúningstímabilsins. Því á ekki að fagna sérstaklega en það er alltaf jákvætt.“

Meiðsli hafa verið að hrjá Kompany á síðustu tímabilum. Hann segist þó líða vel núna og að hann sé reiðubúinn í að tímabilið hefjist. „Við höfum spilað mjög vel á undirbúningstímabilinu, sérstaklega í síðustu tveimur leikjum,“ segir Kompany en City sigraði Real Madrid 4-1 og Tottenham Hotspur 3-0 í síðustu leikjum liðsins vestanhafs.

„Þetta snýst um að halda ró sinni og gera sér grein fyrir því að þetta er undirbúningstímabil. Við verðum að leyfa því að vera það sem það er. En það er betra að fá góða tilfinningu fyrir framhaldinu á undirbúningstímabilinu en að fá enga góða tilfinningu. Við höfum haft góðar tilfinningar það sem af er.“

Fimm, sex lið sem „þurfa“ að vinna deildina

Kompany segir að markmið hans fyrir næsta tímabil sé það sama og hjá öllum öðrum sem spila fyrir Manchester City.

„Við ætlum okkur að vinna alla þá leiki sem við spilum. Vonandi verðum við þess aðnjótandi að láta sigra okkar telja og komast áfram í bikarkeppnunum og Meistaradeildinni. Vonandi verður tímabilið gott og við vinnum deildina. Það er markmiðið, en eins og ég segi þá eru það fimm eða sex lið í deildinni sem „þurfa“ að vinna deildina. Þú munt fá sama svar frá leikmönnum allra þessara liða þar sem fjárfestingin sem lögð er í klúbbana er af slíkri stærðargráðu.“

Vincent Kompany gegnir stöðu alþjóðlegs sendiherra SOS Barnaþorpa. Hér er hann að spila fótbolta við börn í Kinshasa í Lýðveldinu Kongó árið 2014.SOS Childre's villages

Alþjóðlegur sendiherra SOS Barnaþorpa

Vincent Kompany gegnir stöðu alþjóðlegs sendiherra hjá SOS Barnaþorpum og segir hann verkefnið vera sér mjög mikilvægt.

„Síðasta áratuginn hef ég starfað náið með samtökunum og hef margoft ferðast til [Lýðveldisins] Kongó þar sem slíkum þorpum hefur verið komið á fót. Sömuleiðis hef ég skipulagt fjáraflanir og legg sjálfur fé til samtakanna. Ég hef verið svo lánsamur að fá að fylgjast með einu af þessum þorpum byggjast upp alveg frá grunni. Við vorum staddir í [höfuðborginni] Kinshasa fyrir um tíu árum þegar unnið var að því að gera þorpið að veruleika. Þá áttum við erfitt með að sjá í land, að komast yfir öll leyfin og þannig háttar. Ef maður fer Kinshasa núna sjáum við barnaþorp með fjöldann allan af börnum hlaupandi um. Það er frábært.“

Belginn segir að munaðarlausum börnum sem lifa á götunni sé komið fyrir í þessum barnaþorpum. „Við gefum þeim nýtt líf. Þeim er tryggð bjartari framtíð þar sem þeim er komið fyrir í fjölskylduumhverfi og veitt nauðsynleg heilbrigðsþjónusta innan þorpsins. Allt þetta hefur gerst í Kinshasa á þeim tíma sem ég hef verið virkur innan samtakanna og ég tel mig mjög heppinn að hafa haft tækifæri til að hafa haft möguleika á að leggja lóð á vogarskálarnar.“

Faðir Kompany er frá Kongó og segir Vincent að hann hafi tekið tækifærinu fegins hendi að ferðast til Kongó þegar það gafst. „Ég varð ástfanginn af landinu og ástfanginn af samtökunum. Stuðningur við samtökin er mér mikilvægur og þannig hefur allur ágóðinn sem ég fæ af þeim leikjum sem ég spila með belgíska landsliðinu – sama hvort það sé vegna auglýsinga eða spilamennskunnar sjálfrar – runnið til SOS Barnaþorpa og annarra góðgerðarsamtaka í Brussel. Í hvert skipti sem ég spila þá er ástæðan fyrir því góð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×