Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - Breiðablik 0-3 | Sannfærandi Blikasigur í Ólafsvík

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Blika unnu góðan sigur í kvöld.
Blika unnu góðan sigur í kvöld. vísir/ernir
Víkingur Ólafsvík fékk Breiðablik í heimsókn í kvöld er gestirnir fóru með öruggan 3-0 sigur af hólmi. 

Leikurinn fór hægt af stað en eftir 13. mínútna leik kom algjör sprengja er Gísli Eyjólfsson gerði sér lítið fyrir og smellti boltanum í samskeytin af 25 metra færi. Eitt af mörkum sumarsins og á því liggur enginn vafi. 

Víkingur Ó. náði engum takti í sinn leik og voru öll helstu færin Blika meginn. Martin Lund fékk tvö dauðafæri en í bæði skiptin brást honum bogalistinn svo vægt sé til orða tekið.

Það kom þó ekki að sök er Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði annað mark Breiðabliks eftir 40 mínútna leik er Aron Bjarnason lék vörn Ólsara grátt áður en hann lagði boltann á Svein sem var einn á auðum sjó og setti boltann af öryggi í netið.

Í upphafi seinni hálfleiks kláruðu Blikar svo leikinn fyrir fullt og allt er Aron Bjarnason skoraði þriðja mark liðsins og rak síðasta naglan í kistu Ólsara. 

Lítið sem ekkert markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og því öruggur sigur Blika staðreynd en með sigrinum lyfti liðið sér upp í 8. sæti deildarinnar með 21 stig. 

Víkingur Ó. situr eftir leik í 9. sæti með 19 stig, einungis þremur stigum frá fallsæti.

Afhverju vann Breiðablik?

Í það fyrsta þá mætti Breiðablik til leiks en ekki er sömu sögu hægt að segja um heimamenn frá Ólafsvík. Breiðablik voru með leikinn frá A-Ö og sköpuðu bestu færi og tilþrif leiksins á meðan það lokaði á allar sóknaraðgerðir Ólafsvíkinga.

Ólsarar réðu einfaldlega ekki við eldfljótu sóknarlínu Breiðabliks er Aron Bjarnason og Gísli Eyjólfsson fóru hamförum. 

Það var engu líkara en að Ólafsvíkingar mættu ekki tilbúnir til leiks og það varð þeim að falli. Við tökum þó ekkert af Breiðablik sem hefur sýnt á köflum frábæra takta í sumar en einfaldlega ekki náð að klára leiki. 

Ef þeir byggja ofan á þessa frammistöðu þá er aldrei að vita nema að liðið geti blandað sér í baráttuna um Evrópusæti það sem eftir lifir sumri. 



Hverjir stóðu upp úr?


Það er erfitt að nefna ekki strax, Gísla Eyjólfsson, en draumamarkið hans í upphafi leiks væri hægt að horfa á aftur og aftur. 

Á meðan var Aron Bjarnason einnig drjúgur en hann kláraði leikinn með eina stoðsendingu, sem var af dýrari gerðinni, og mark. 

Andri Rafn Yeoman var líka mjög áberandi í leiknum og stóð sig virkilega vel. Einnig væri hægt að nefna Martin Lund en því miður er hann ekki jafn góður að klára færin eins og hann er að koma sér í þau. 

Vörn Blika var einnig frábær en ég man ekki eftir einu einasta færi hjá Ólafsvíkingum í kvöld.



Hvað gekk illa?


Það hreinlega gekk allt á aftur fótunum hjá Ólafsvíkingum í kvöld. Liðið var andlaust og virkuðu leikmenn hreinlega þungir á sér.

Einnig verður að nefna að staða liðsins fyrir næsta leik gegn KA virðist ekki vera alltof góð en Guðmundur Steinn, fyrirliði og markahæsti leikmaður liðsins, fór meiddur útaf og virkuðu meiðslin mögulega alvarleg en það á þó eftir að koma í ljós. 

Ekki nóg með það en einnig fór Ignacio Heras meiddur út af í undir lok fyrri hálfleiks og þar að auki verða Gunnlaugur Hlynur og Kwame Quee í banni í næsta leik.

Fari svo að allir þessir fjórir leikmenn verða fjarri góðu gamni í næsta leik þá verður býsna erfitt fyrir Ejub Purisevic, þjálfara liðsins, að fylla hreinlega í lið gegn KA. 

Áhyggjuefni og sérstaklega þar sem liðið er einungis þremur stigum frá fallsæti eftir að Eyjamenn sigruðu Skagamenn fyrr í dag.



Hvað gerist næst?


Næsti leikur Breiðabliks er gegn botnliði ÍA sem ætti að vera skyldusigur en þó má búast við dýrvitlausum Skagamönnum sem verða að rífa sig í gang ef liðið ætlar ekki að hríðfalla í Inkasso.

Víkingur Ó. heimsækir KA á Akureyri en eins og greint var frá hér fyrir ofan þá er staðan á hópnum ekki góð þessa stundina fari allt á versta veg. Vonandi, þeirra vegna, eru meiðsli Guðmundar og Ignacio ekki alvarleg.

Maður leiksins: Aron Bjarnason en hann lék vörn Ólafsvíkinga grátt hvað eftir annað og endaði leikinn með marki og stoðsendingu. Einkunnir allra leikmanna má sjá undir Liðin hér að ofan.

Milos Milojevic.visir/ernir
Milos Milojevic: Erfitt að stoppa okkur þegar við spilum svona

„Þetta var leikur þar sem bæði spilamennska og úrslit duttu með okkur. Ef og þegar við gerum það þá er erfitt að stoppa okkur,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks eftir sigur liðsins á Víkingi Ó.

„Þetta er erfiður völlur. Hingað hafa topplið verið að koma og missa stig. Þeir létu þetta í raunninni líta út fyrir að vera léttara en það var í raun og veru,“ en Víkingur Ó. hefur verið duglegt að taka stig af stóru liðunum í sumar með t.a.m. sigrum gegn FH og Stjörnunni.

Leikur Breiðabliks var frábær í kvöld en Milos er á að hans menn geti spilað enn betur.

„Ég er þannig maður að ég vil alltaf betra og betra og ég hef fulla trú á að strákarnir geti spilað enn betur en þeir gerðu í kvöld.“

Það gæti hafa farið um suma stuðningsmenn Blika er Damir Muminovic var tekinn út af vegna meiðsla en Milos er ekki á því að vera með áhyggjur. 

„Þetta var bara smá væl í Damir held ég. Ég hugsa að hann verði tilbúinn í næsta leik.“

Ejub Purisevic, þjálfari Víkinga,Vísir/Eyþór
Ejub Pursevic: Ég er alltaf vongóður

Ejub Pursevic, þjálfari Ólafsvíkinga, var ekki sáttur með sína menn eftir 3-0 tapið gegn Blikum.

„Þetta var alls ekki nógu gott. Við virkuðum bara ekki tilbúnir í leikinn. Breiðablik voru einfaldlega fljótari, harðari og sterkari. Við vorum ekki einu sinni nálægt því að gefa þeim almennilegan leik.“

Guðmundur Steinn og Ignacio fóru meiddir út af í kvöld en þar að auki eru Gunnlaugur Hlynur og Kwame Quee báðir í banni fyrir næsta leik gegn KA. 

Þrátt fyrir að erfitt sé að sjá þessa stundina hvernig Ejub getur mögulega stillt upp liði eftir viku segir hann sig vera vongóðan.

„Það gæti orðið erfitt. Ég er samt alltaf vongóður. Við höfum gengið í gegnum ýmsa erfiða hluti og eina sem við getum er að reyna að halda hausnum uppi og vinna. Vonandi uppskerum við eftir því.“

Gísli Eyjólfsson skoraði frábært mark fyrir Blika í kvöld.Vísir/Anton
Gísli Eyjólfsson: Tók Cantona fagnið - Aldrei hitt boltann svona vel

Gísli Eyjólfsson átti frábæran leik fyrir Breiðablik í 3-0 sigri liðsins á Ólafsvíkingum í kvöld. Hann var að vonum ánægður í leikslok.

„Þetta var rosalega gott. Eftir að hafa tapað tveimur í röð var gott að koma hingað og hysja upp um sig buxurnar.“

Og Gísli var ekki bara ánægður með sigurinn heldur skoraði hann sannkallað draumamark er hann smellhitti boltann og setti hann í netið rétt við samskeytin. En það var ekki bara markið sem var rándýrt heldur var fagnið hans Gísla einnig af dýrari kanntinum.

„Ég reyndi að láta líta út eins og ég geri þetta á hverri einustu æfingu. Tók Cantona fagnið en satt að segja held ég að ég hafi bara aldrei hitt boltann jafn vel,“ en Gísli er þá að vísa í frægt fagn frá Eric Cantona eftir glæsilegt mark hans gegn Sunderland fyrir 21 ári síðan.

Gísli var lánaður til Víkings Ó. og stóð sig þar mjög vel en síðan Breiðablik fékk hann til baka hefur hann spilað nánast hverja einustu mínútu.

„Það var leiðinlegt að gera þetta gegn gamla félagi mínu en það var sætt að ná sigri.“

Þorsteinn Már Ragnarssonvísir/eyþór
Þorsteinn Már: Gísli var bara heppinn

Þorsteinn Már Ragnarsson, leikmaður Ólafsvíkinga, var ekki stolltur af sér og sínum mönnum eftir afgerandi, 3-0, tap á heimavelli gegn Blikum.

„Við mættum ekki nógu vel stemmdir í leikinn og Blikar hreinlega keyrðu bara yfir okkur í dag. Við höfum verið á góðri siglingu og ætluðum bara að halda því áfram en ég kann enga skýringu á afhverju við gerðum það ekki.“

Gísli Eyjólfsson skoraði glæsilegt mark en hann spilaði með Þorsteini síðasta sumar er hann var á láni hjá Ólafsvíkingum. Þorsteinn var ekki á því að gefa fyrrum samherja sínum eitthvað hrós

„Gísli hittir aldrei markið. Þetta var bara einhver heppni hjá honum,“ sagði Þorsteinn en viðurkenndi síðan að hann væri auðvitað bara að grínast.

„Gísli er frábær skotmaður og við vorum búnir að undirbúa okkur fyrir það og ætluðum ekki að hleypa honum í þetta svæði en hann komst þangað og skoraði þetta draumamark.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira