Lífið

Heillar dómnefndina með apótekaraþema

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Jónas er barþjónn á Apótekinu og mun taka apótekaraþemað alla leið í Mexíkó. Fréttablaðið/Anton Brink
Jónas er barþjónn á Apótekinu og mun taka apótekaraþemað alla leið í Mexíkó. Fréttablaðið/Anton Brink
„Við vorum saman níu barþjónar frá Austur-­Evrópu, Íslandi og Ísrael. Við hittum þarna alls konar gúrúa úr þessum bransa sem sýndu okkur alls konar aðferðir, alls konar leiðir til að hugsa hlutina öðruvísi, hvernig maður á að koma fram á sviði fyrir framan dómarana. Þeir létu okkur líka fara í fótspor dómaranna og dæma aðra, til að láta okkur líða eins og við séum dómararnir svo við áttum okkur betur á því hvernig við verðum dæmd í keppninni. Svo fórum við hægt og rólega í gegnum þau verkefni sem við munum fara í gegnum úti – hvernig þau verða, hvernig þau verða skoruð og hvernig við gætum fengið aukastigin sem gera oft gæfumuninn,“ segir Jónas Heiðarr Guðnason, besti barþjónn landsins, um æfingabúðir sem hann er nýkominn úr í Prag. Þar var hann í undirbúningi fyrir World Class barþjónakeppnina sem fer fram í Mexíkó en Jónas leggur í hann í dag.

World Class keppnin er langstærsta og virtasta barþjónakeppni sinnar tegundar í heiminum og því til mikils að vinna fyrir Jónas úti í Mexíkó.

„Þetta eru fjórir þættir sem ég er að fara að taka. Tveir þeirra eru ekkert undirbúnir heima og við vinnum þá bara úti en hinir tveir eru alveg skipulagðir frá A til Ö hérna heima. Fyrst er það „challenge“ þar sem ég er að kynna mig og barinn minn og þar er ég með algjört apótekaraþema – ég verð í slopp, með sprautur og gamlar apótekarakrukkur á barnum. Svo blanda ég svokallaðan Painkiller – kokteil sem er eingöngu blandaður með áfengum hráefnum og ég hræri það saman í þurrís svo að þetta sé allt að krauma þannig að það sé svona vísinda/læknastemming í gangi. Síðan ber ég drykkinn fram í hundrað millilítra sprautu á ís og glas til hliðar og þú sprautar drykknum sjálfur í glasið.

Síðan tala ég um barinn minn, hvernig við rúllum á barnum okkar – svo tala ég um kokteilmenninguna á íslandi, hvernig hún hefur þróast og hversu lítil og ný hún er. Ég tala um hvernig við á Apótekinu höfum haft áhrif á kokteilmenninguna,“ segir Jónas sem er vel stemmdur fyrir keppnina.

Í tilefni þess að förinni er heitið til Mexíkó mælir Jónas með kokteilnum Paloma.

„Uppáhaldsdrykkurinn minn sem er einfalt að gera heima hjá sér svona um þessar mundir, sérstaklega á sumrin, er Paloma. Það er vinsælasti drykkurinn í Mexíkó – fólk heldur að þar drekki allir Margarítur, en það er meira Ameríkaninn sem drekkur þær. Þetta er tequila og lime, eins og Margaríta, en greip er kreist eða greipgos notað og pínulítið salt. Það er auðvelt að fá sér fimm svona í sólinni og þér hefur aldrei liðið betur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.