Innlent

Hugnast ekki að fámennur hópi stilli upp í sæti

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Halldór tilkynnti um ákvörðun sína í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Halldór tilkynnti um ákvörðun sína í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir/Ernir
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, hyggst ekki gefa kost á sér í leiðtogakjöri flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Þetta tilkynnti Halldór í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í gær. Sagði Halldór að hann hafi komist að þessari niðurstöðu fyrir tíu dögum, eftir að hafa endurmetið aðstæður sínar. Fyrir viku sagði Halldór í samtali við Fréttablaðið að hann hygðist sækjast áfram eftir oddvitasætinu, en tók fram að vika væri þó langur tími í pólitík.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá eru nokkrir orðaðir við oddvitasætið, þar á meðal tveir aðstoðarmenn ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þau Svanhildur Hólm Valsdóttir og Borgar Þór Einarsson.

„Maður veit ekkert hvort þetta er samkvæmisleikur eða hvort það er eitthvað á bak við þetta,“ segir Halldór í samtali við Fréttablaðið. „Það er alltaf þörf á einhverri endurnýjun. Hvað varðar leiðtogana og oddvitann þá gera Sjálfstæðismenn miklar kröfur. Stundum hef ég á tilfinningunni að þeir séu að bíða eftir því að Davíð Oddsson komi aftur með 60% fylgi. Það var árið 1991 og síðan þá eru margir oddvitar búnir að vera.“

Skiptar skoðanir eru meðal Sjálfstæðismanna um ágæti boðaðs leiðtogakjörs í október. Þykir mörgum tillagan ekki vera lýðræðisleg. „Ég held að það sé best að gera þetta eftir áramót. Mér hefur aldrei hugnast það að fámennur hópi stilli upp í sæti. Ég tel að sem flestir eigi að koma að þessu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×