Óhemjumikil úrkoma hefur fylgt hitabeltisstorminum Harvey sem gekk á land í Texas sem sterkur fellibylur á föstudagskvöld. Í Houston mældist sólahringsúrkoman rúmlega 60 sentímetrar kl. 7 í morgun að staðartíma, að sögn Washington Post.
Um allt stórborgarsvæðið og víðar á strandsvæðum Texas er viðvörun í gildi vegna hættu á mannskæðum skyndiflóðum og hefur fólk verið eindregið hvatt til þess að halda kyrru fyrir enda ferðalög ómöguleg.

„Búist er við að hamafaraflóðin á Houston-stórborgarsvæðinu versni,“ sagði Veðurstofa Bandaríkjanna í morgun.
Á myndinni sem fylgir tístinu hér fyrir neðan sést hvernig vatnselgurinn í Houston nær um það bil upp í umferðarskilti yfir hraðbraut sem bílar aka undir við venjulegar aðstæður.
This image and the forecast of what is still to fall.... This is surreal. #HoustonFlood #Harvey pic.twitter.com/zK9WojsMAH
— Matthew Sitkowski (@MattSitkowski) August 27, 2017
Vatnsstaðan í flestum ám og bjúgvötnum er sú hæsta sem sögur fara af og sums staðar hefur vatnshæðin farið þremur metrum fram úr fyrri metum.
Ekkert lát á heldur að verða á úrkomunni í bráð. Spáð er 38-63 sentímetrum til viðbótar við strendur Texas næstu dagana.
„Þetta eru hamfarir sem fara í sögubækurnar. Þetta er stormur sem Bandaríkin hafa ekki orðið vitni að áður,“ sagði Brock Long, forstjóri Almannavarna Bandaríkjanna (FEMA), við CNN í dag.
