Erlent

Öflugasti fellibylurinn í þrettán ár

Þórhildur Þorkelsdóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Versta óveður sem skollið hefur á meginlandi Bandaríkjanna í rúman áratug varð í nótt og dag þegar fellibylurinn Harvey gekk yfir landið. Yfir þrjú hundruð þúsund manns eru án rafmagns. Neyðarástandi var lýst yfir í fimmtíu ríkjum þar sem samgöngur lömuðust og þúsundir neyddust til að flýja heimili sín vegna veðurofsans.

Fellibylurinn gekk á land við suðurströnd Bandaríkjanna um þrjúleytið í nótt en Texas og nágrannaríki urðu verst úti. Harvey var í nótt flokkaður sem fjórða stigs fellibylur en honum fylgdi gríðarleg úrkoma og vindhraði sem var um sextíu metrar á sekúndu. Fellibylurinn var mjög öflugur og olli strax mikilli eyðileggingu.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, fór fram á aukna aðstoð vegna óveðursins.Visir/getty
Fjöldi björgunarfólks voru á svæðinu en víða voru aðstæður of hættulegar til björgunaraðgerða. Ofankoman var gríðarleg; hávaðarok og fjögurra metra flóðöldur við ströndina. Langar bílaraðir mynduðust þegar hundruð þúsunda Texasbúa reyndu að flýja hamfarasvæðin. 

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, fór í gær fram á aukna aðstoð frá Alríkisstjórninni en hann reiknar með að tjón af völdum Harvey komi til með að hlaupa á milljörðum Bandaríkjadala. Donald Trump forseti varð við þessari beiðni og fellibylurinn er flokkaður formlega sem náttúruhamfarir.

Fellibylurinn var mjög öflugur og olli strax mikilli eyðileggingu.Vísir/getty
„Eins og lýst var á símafundinum áðan mun flóðhæðin slá fyrri met á fjölmörgum stöðum, allt frá Corpus Christi svæðinu til Houston og nágrennis,“ segir Abbott, ríkisstjóri Texas.

Styrkur fellibylsins hefur minnkað eftir því sem liðið hefur á daginn og er hann nú flokkaður sem fyrsta stigs fellibylur en aftur á móti má búast við miklum flóðum í kjölfarið sem yfirvöld hafa ekki síður áhyggjur af. Því er spáð að úrkoman verði allt að einum metra í það heila og að óveðrið gangi ekki niður fyrr en á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku.

„Við munum þurfa að fást við gífurleg flóð sem slá fyrri met á fjölmörgum svæðum vítt og breitt um Texas. Eins og þið vitið mun þessi fellibylur fara langt inn í land og spáð er að hann muni sveima um í talsverðan tíma, jafnvel dögum saman,“ segir ríkisstjórinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×