Erlent

Trump náðar hinn umdeilda lögreglustjóra Arpaio

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Arpaio tók virkan þátt í kosningabaráttu Donald Trump.
Arpaio tók virkan þátt í kosningabaráttu Donald Trump. Vísir/AFP
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur náðað Joe Arpaio, fyrrum lögreglustjóra í ArizonaJoe Arpaio, sem er núna áttatíu og fimm ára gamall, var fundinn sekur um að hafa virt að vettugi réttartilskipun um að hætta að láta lögreglumenn við umferðareftirlit stöðva þá sem þeir töldu vera innflytjendur. BBC greinir frá.

Arpaio þakkaði Trump fyrir náðunina á Twitter og sagði að úrskurður dómstólsins hefði verið pólitískar nornaveiðar starfsmanna Obama sem störfuðu enn í dómsmálaráðuneytinu. Þá sagði hann einnig að hann hlakkaði til að „gera Bandaríkin aftur frábær.“

Neitaði fyrrum lögreglustjórinn að gefa það upp hvort hann myndi sækjast eftir að gegna embættinu á næsta kjörtímabili.

Trump hefur ítrekað hrósað Arpaio fyrir störf sín og stefnu hans í innflytjendamálum. Í yfirlýsingu frá Trump þar sem hann tilkynnti náðunina, sagði hann að „Arpaio hafi verndað almenning gegn plágu glæpa og ólöglegra innflytjenda.“

Ákvörðunin hefur verið fordæmd af fjölmörgum þingmönnum demókrata og baráttuhópum sem berjast fyrir borgaralegu réttlæti. Greg Stanton, borgarstjóri Phoenix, kallaði náðunina „löðrung fyrir Suður-ameríka samfélagið í Bandaríkjunum.“

Arpaio hefði getað hlotið sex mánaða fangelsisvist en dæma átti í málinu í október. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×