Innlent

Magakveisa herjar á starfsfólk grunnskóla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hörðuvallaskóli í Hafnarfirði er annar tveggja skóla þar sem starfsmann hafa margir hverjir fengið óþægindi í maga og niðurgang undanfarnar vikur.
Hörðuvallaskóli í Hafnarfirði er annar tveggja skóla þar sem starfsmann hafa margir hverjir fengið óþægindi í maga og niðurgang undanfarnar vikur. ALARK Arkitektar

Skólastarf í Háaleitisskóla - Hvassaleiti í Reykjavík og Hörðuvallaskóla verður ekki stöðvað vegna veikinda starfsmanna skólans. Ekki er talin hætta á að nemendur smitist. Matarsýking er talin líklegasta ástæðan á veikindum starfsfólksins sem hafa fundið fyrir óþægindum í maga og niðurgang.

Veikindin komu upp skömmu eftir að tugir erlendra skáta veiktust í kjölfar nóróveirusýkingar sem kom upp á Úlfljótsvatni. Kviknaði strax grunur um að veikindi skátanna og kennarnna tengdust. Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir hins vegarað faraldur magakveisu hafi komið upp meðal starfmanna skólanna tveggja á síðustu tveimur vikum.

Stór hluti starfsmanna hafi veikst með magaóþægindum og niðurgangi sem varir í nokkra daga. Ekki hafi borið á ofangreindum veikindum meðal starfsmanna annarra skóla á höfuðborgarsvæðinu og þeir starfsmenn sem hafi veikst virðast ekki hafa smitað aðra í neinum mæli.

„Rannsóknir á veikum einstaklingum hafa enn sem komið er ekki leitt í ljós sýkingarvald veikindanna og ekki er ljóst á þessari stundu hvernig einstaklingarnir smituðust en líklegt er að um matarsýkingu sé að ræða,“ segir í tilkynningu frá MAST.

Á samráðsfundi sóttvarnalæknis með stjórnendum skólanna, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu og Matvælastofnun var ákveðið að senda fleiri sýni í rannsóknir frá veikum einstaklingum og matvælum en þegar hefur verið gert.

„Veikum starfsmönnum verður ráðlagt að halda sig heima meðan niðurgangurinn gengur yfir og að auki í einn dag til viðbótar. Hvatt er til almenns hreinlætis og handþvottar og að farið sé eftir leiðbeiningum um meðferð matvæla.“

Ekki er talin hætta á að magakveisan breiðist út til nemenda og því ekki ástæða til að stöðva starfsemi skólanna á grunni sýkingarhættu. Áfram verður fylgst náið með framgangi veikinda í þessum tveimur skólum og hvort faraldrar komi upp í öðrum skólum segir í tilkynningunni.

Skólasetning í Háaleitisskóla - Hvassaleiti sem fyrirhuguð var á þriðjudaginn fór ekki fram fyrr en í dag vegna fyrrnefndra veikinda.


Tengdar fréttir

Meirihluti starfsfólks með magakveisu

Skólasetningu í Háaleitisskóla hefur verið frestað þar sem meirihluti starfsfólks skólans er veikur af magapest. Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar segir börnin fá að njóta vafans en niðurstöðu úr sýnatöku er að vænta í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×