Innlent

Leita vitna vegna skemmdarverka á bílum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Aðkoman hjá Guðmundi Bróa og hans nánustu var ekki falleg í morgun.
Aðkoman hjá Guðmundi Bróa og hans nánustu var ekki falleg í morgun. Guðmundur Brói
Lögreglan í Hafnarfirði hefur til skoðunar skemmdarverk sem unnin voru á bílum í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi í nótt.

Auglýst var eftir vitnum að verknaðinum á Facebook í hópnum Íbúar á Seltjarnarnesi þar sem tveir bílar voru spreyjaðir með svartri málningu. Einnig auglýsti Guðmundur Brói Sigurðsson eftir vitnum þar sem samskonar skemmdarverk hafði verið unnið á bíl hans í Hafnarfirði.

„Við vitum af hverra völdum það er, það er ekkert víst að viðkomandi hafi gert þetta sjálfur. Heldur hafi fengið menn til þess,“ segir Guðmundur Brói í samtali við Vísi.

Nú leiti þau vitna sem hafi séð mann á ferli við Lækjargötu í Hafnarfirði og Austurströnd á Seltjarnarnesi milli klukkan 20:30 í gærkvöldi og 07:48 í morgun.

Skemmdarverk og íkveikjur

Hann segist ekki getað sannað hver hafi verið að verki með myndum en sé viss um að þar sé á ferð fyrrverandi tengdasonur sinn sem hafi tengsl við undirheima bæði hérlendis og erlendis. Hann segir að maðurinn hafi unnið fjölskyldunni grikki í um þrjú til fjögur ár eða allt frá því að dóttir hans sótti um skilnað. Hafi hann þá ekki viljað veita henni skilnaðinn.

„Við grunum hann um að hafa kveikt í póstkassa hjá okkur í stigagangi og skemmt fyrir okkur húsgögn sem voru í geymslu,“ segir Guðmundur Brói. 

Hann segist hafa gert lögreglunni viðvart.

„Þeir komu til mín strax í morgun. þeir vita af hinum tveimur bílunum sem og af hinu sem eru skemmdarverk og íkveikjur.“

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við Vísi að málið væri til skoðunar en vildi annars ekki tjá sig um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×