Innlent

Óli býður sig fram til varaformanns VG

Atli Ísleifsson skrifar
Óli Halldórsson.
Óli Halldórsson. Vinstri græn
Óli Halldórsson hefur tilkynnt um framboð sitt til varaformanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Óli er varaþingmaður og á sæti í sveitarstjórn Norðurþings fyrir hönd VG. Gegnir hann embætti formanns byggðarráðs.

Björn Valur Gíslason tilkynnti á dögunum að hann hugðist segja af sér varaformennsku í flokknum. Landsfundur VG verður haldinn dagana 6.-8. október næstkomandi.

Í tilkynningu frá Óla segir að hann muni nýta tímann næstu vikurnar og kynna fyrir félögum í flokknum og almenningi pólitísk stefnumið mín.

„Mikill hljómgrunnur er í samfélaginu fyrir skýrum áherslum Vinstri grænna og hefur hreyfingin fest sig í sessi sem eitt öflugasta stjórnmálaafl á Íslandi. Nú er lag til frekari sóknar fyrir hreyfinguna. Næsta vor fara fram sveitarstjórnarkosningar og er mikilvægt að flokkurinn nýti þau sóknarfæri sem hann hefur. Þá er einnig eðlilegt að í forystu flokksins veljist fólk með sæti í sveitarstjórn til að liðsinna við undirbúning kosninganna,“ segir Óli.

Óli er fæddur árið 1975, er giftur Herdísi Þ. Sigurðardóttur, skólameistara Framhaldsskólans á Húsavík, og á fjögur börn. Hann hefur stundað nám í heimspeki, umhverfisfræði og uppeldisfræði (BA, MA, kennsluréttindi).

Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, hefur sömuleiðis tilkynnt um framboð til varaformanns.


Tengdar fréttir

Prófessor vill koma á eftir Birni

Edward H. Huijbens kemur til með að gefa kost á sér sem varaformaður VG á landsþingi í haust. Hinn umdeildi Björn Valur Gíslason sækist ekki eftir endurkjöri. Hluti flokksins telur rétt af Birni að draga sig í hlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×